Suðurnesjabær samþykktur í bæjarstjórn - beðið staðfestingu ráðherra

Bæjarstjórn Garðs og Sandgerðis samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að heiti sameinaðs sveitarfélags Sandgerðisbæjar og Garðs verði Suðurnesjabær. Það heiti fékk yfirburðakosningu í könnun meðal íbúa.

Að mati bæjarstjórnar uppfyllir nafnið skilyrði 5. gr. sveitarstjórnarlaga um heiti sveitarfélaga enda er nafnið í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Bæjarstjóra var falið að óska eftir staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á nafninu Suðurnesjabær.

Eins og áður hefur komið fram tóku þátt 933 manns af 2.709 sem höfðu kosningarétt. Þátttaka var því 34,44% og hlaut Suðurnesjabær 75,3%.
Örnefnanefnd var á móti nafninu Suðurnesjabær og taldi það m.a. ná lengra en sveitarfélagið nýja gerir. Það gæti tekið einhverjar vikur áður en ráðherra hefur lokið því verkefni að staðfesta nafnið.