Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjabær hætti rekstri ljósabekkja
Íþróttamiðstöðin í Garði, þar sem Suðurnesjabær rekur ljósabekki. VF-mynd: HBB
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 23. október 2022 kl. 06:15

Suðurnesjabær hætti rekstri ljósabekkja

Bæjarlistinn í Suðurnesjabæ leggur til að Suðurnesjabær hætti rekstri ljósabekkja og að tekinn verði út gjaldskrárliðurinn ljósabekkir í íþróttamiðstöðinni í Garði úr gjaldskrá sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í bókun listans á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar.

Bæjarlistinn vill leggja áherslu á heilsu íbúa og að Suðurnesjabær sé heilsueflandi samfélag eins og samþykkt hefur verið. Því finnst fulltrúum Bæjarlistans eðlilegt að sveitarfélagið hætti rekstri ljósabekkja. Á heimasíðu Geislavarna ríkisins kemur m.a. fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) styður við takmörkun á notkun ljósabekkja í þeim tilgangi að draga úr hættu á skaðlegum áhrifum af notkun þeirra. Í nýrri skýrslu frá stofnuninni segir að að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en tíu þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einnig kemur fram að rannsóknir sýna að þeir sem hafa notað ljósabekk að minnsta kosti einu sinni eru í 20% meiri hættu að fá sortuæxli en þeir sem aldrei hafa gert það. Þeir sem fara í ljósabekk fyrir 35 ára aldur eru í 59% meiri hættu að fá sortuæxli.

Í ljósi þessa m.a. telur Bæjarlistinn að Suðurnesjabær eigi ekki standa að rekstri slíkra bekkja, sérstaklega í ljósi þess að rekstur þessara bekkja og afleiðingar af notkun þeirra teljast vart til markmiða heilsueflandi samfélags.

Afgreiðsla bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar er að samþykkt var samhljóða að vísa tillögunni til vinnslu fjárhagsáætlunar.