Suðurnesin sitja ekki við sama borð og aðrir landshlutar
– þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna
Stjórn Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, gerði á síðasta fundi sínum athugasemd við málsmeðferð á úthlutun styrkja til svæðisbundinnar þróunar. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu var engu úthlutað til Markaðsstofu Reykjaness af 107 milljónum. Samkvæmt svörum stofnunarinnar voru umsóknir af svæðinu góðar en Ferðamálastofa tók ákvörðun um að úthluta ekki neinu fjármagni til Suðurnesja.
„Enn á ný er gengið fram hjá svæðinu þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna,“ segir í fundargerð stjórnarinnar og var framkvæmdastjóra Heklunnar falið að koma á framfæri athugasemdum vegna málsmeðferðar og úthlutunar Ferðamálastofu.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir athugsemdir stjórnar Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja frá 5. október sl. Skv. upplýsingum frá Ferðamálastofu var engu úthlutað til Markaðsstofu Reykjaness af þeim 107 milljónum sem úthlutað var til svæðisbundinnar þróunar.
„Ítrekað hefur verið bent á að Suðurnesin sitja ekki við sama borð og aðrir landshlutar þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna og er þetta enn ein staðfestingin á því,“ segir í bókun sem allir ellefu bæjarfulltrúar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar standa að.