Suðurnesin hornrekur hjá ríkinu
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktað um nýliðna helgi að ríkisvaldið verði að leiðrétta það misrétti sem á sér stað í úthlutun opinberra fjármuna. Það er nánast sama hvaða málaflokkar eru skoðaðir, alls staðar eru Suðurnesin hornrekur, og þá sérstaklega í velferðar- og menntamálum. Svæðinu er gert að veita sömu þjónustu og aðrir landshlutar þrátt fyrir minna fjármagn á íbúa.
Fjármagni til málefna fatlaðra er ekki deilt niður á sanngjarnan hátt um landið og sá mismunur sem var til staðar fyrir flutning málaflokksins til sveitarfélaganna er enn til staðar. Úthlutun til heilbrigðismála er mun lægri á íbúa til Suðurnesja en annarra svæða og er slíkt ólíðandi.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja fær um 90 milljónir króna minna fjárframlag á ári en sambærilegir skólar, sama á við um Keili. Tryggja ber fjármagn til að sá vaxtarsproti sem Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er, fái vaxið og dafnað. Að auki styður ríkið ekki eins vel við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í samanburði við sambærilegar stofnanir á öðrum landshlutum og Fisktækniskóli Suðurnesja er eingöngu kominn á fjárlög fyrir árið 2013 og er framtíð hans því óviss. Eins er mikilvægt að styðja við Þekkingarsetur Suðurnesja.
Mjög mikilvægt er þegar kemur að úthlutun fjármuna í tengslum við Sóknaráætlun landshluta að þeim sé skipt jafnt milli landshluta.
Suðurnesjamenn eru ekki að biðja um aukafjármuni fram yfir önnur landsvæði – aðeins að fjármunum sé úthlutað á réttlátan hátt þar sem allir landsmenn sitja við sama borð, segir í ályktun aðalfundarins.