Fréttir

Suðurnesin bæta stöðu sína enn frekar
Fimmtudagur 1. mars 2018 kl. 14:20

Suðurnesin bæta stöðu sína enn frekar

Suðurnes koma vel úr í samanburði á efnahagslegri og félagslegri stöðu á Norðurlöndum í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar State of the Nordic regions. Frá þessu er greint á vef Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.
 
Nordregio, rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar vann skýrsluna þar sem metin er samkeppnishæfni sveitarfélaga til að laða að sér fjármagn, störf og mannauð.
 
Suðurnesin mega vel við una en þau hafa hækkað sig um sex sæti á listanum frá því fyrir tveimur árum. Fyrir tveimur árum vermdu þau 18. sæti á listanum en hafa hækkað sig upp í tólfta sæti, “ segir Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, starfsmaður Nordregio. Þar á hún við lista þar sem öllum stjórnsýslusvæðum Norðurlandanna er raðað niður eftir mati á framtíðarhorfum þeirra eða eftir svokölluðu „Nordregio Regional Potential Index“.
Við samanburðinn var horft til þeirra breytinga sem orðið hafa á síðustu tveimur árum hvað varðar þróun íbúafjölda og samsetningu, atvinnustig og þátttöku á vinnumarkaði og þróun hagvaxtar. Í skýrslunni er Norðurlöndunum skipt niður í 74 stjórnsýslusvæði, af þeim eru átta á Íslandi.
Aðeins höfuðborgarsvæðið er ofar Suðurnesjum af íslenskum stjórnsýslusvæðunum en Suðurnes eru þó í 1. sæti á listanum yfir sveitarfélög í dreifðri byggð á Norðurlöndunum.
 
Athygli vekur að þau svæði sem hækka sig á listanum eru flest á Íslandi en landið kom almennt vel út í samanburðinum.
 
„Miklu skiptir að á Íslandi er staða vinnumarkaðarins almennt góð, atvinnuþátttaka er mikil og atvinnuleysi ungs fólks lítið samanborið við önnur svæði,“ segir Hjördís.
 
State of the Nordic Region er samantekt þekkingar og upplýsinga til að gefa heildarsýn á þróunina á Norðurlöndum og er ætlað sem hjálpartól norrænna valdhafa þegar móta á nýjar stefnur.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024