Suðurnes verði eitt þjónustusvæði
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar vill að Suðurnes verði eitt þjónustusvæði fyrir þjónustu við fatlaða. Samþykkt bæjarstjórnar þess efnis var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær og er hún í takt við tillögu verkefnisstjórnar um flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga á Suðurnesjum.
„Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að samstarfið muni byggja á dreifðri þjónustu í samræmi við fyrirliggjandi samningsdrög um Sameiginlegt þjónustusvæði Suðurnesja um þjónustu við fatlaða, byggt á sama grunni og þjónustusvæði á Suðurlandi.
Bæjarstjóra er falið að vinna málið áfram í samstarfi við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og undirrita samninginn með fyrirvara um endanlegt samþykki bæjarstjórnar.
Á grunni ofangreinds samnings um þjónustusvæði þarf að vinna þjónustusamning milli sveitarfélaganna fimm um rekstur sameiginlegra verkefna þjónustusvæðisins og umsýslu rekstrarsjóðs. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar samþykkir að sú þjónusta verði vistuð í eitt ár til reynslu hjá Reykjanesbæ,“ segir ennfremur í samþykktinni.