Styrkur til Listasafns Reykjanesbæjar
Listasafn Reykjanesbæjar hefur náð þeim merka áfanga að fá úthlutað fullum rekstrarstyrk frá Safnasjóði að upphæð krónur 1.500.000 og 200.000 króna verkefnastyrk fyrir árið 2004.
Safnasjóður veitir styrki til byggða- og minjasafna, listasafna og náttúrugripasafna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja starfsemi safna sem falla undir safnalög og uppfylla eftirtalin skilyrði:
Safnið skal hafa sjálfstæðan fjárhag og vera stjórnað af forstöðumanni í a.m.k. hálfu starfi. Safnið skal starfa eftir stofnskrá sem hlotið hefur staðfestingu safnaráðs og skal starfa eftir stefnu sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti. Safnið skal rekið óaðfinnanlega að mati safnaráðs og fjárhagsgrundvöllur þess skal vera tryggður. Safnið skal vera opið almenningi daglega á auglýstum tíma a.m.k. þrjá mánuði á ári. Safnið skal bjóða upp á safnfræðslu eftir því sem við verður komið. Safnið skal skrá safngripi eftir viðurkenndu skráningarkerfi. Safnið skal fylgja viðurkenndum alþjóðlegum siðareglum safna.
Þetta er fyrsta úthlutun Safnasjóðs til Listasafnsins en Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur notið rekstrarstyrks í nokkur ár. Styrkurinn er um leið viss viðurkenning á starfsemi Listasafnsins en gestafjöldi Duushúsa hefur margfaldast frá síðasta ári og voru gestir í febrúarmánuði 4.335 talsins.
Myndin: Frá hádegistónleikum í DUUS-húsum. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.