Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Styrkleikar Suðurnesjanna
Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja í gönguferð fyrir skömmu.
Fimmtudagur 18. október 2012 kl. 07:00

Styrkleikar Suðurnesjanna

Víkurfréttir hafa undanfarna daga fjallað um áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar, samstarfshóps um velferðarmál á Suðurnesjum, sem kom út fyrir skömmu. Hér heldur sú umfjöllun áfram en áður hefur verið fjallað um ýmis mál sem miður hafa farið á svæðinu. Sveitarfélögin á Suðurnesjum vinna flest eftir yfirlýstum stefnum varðandi fjölskyldumál, forvarnir, fjölmenningu, skólamál og jafnréttismál. Hér að neðan eru tíunduð mál sem standa sterkum fótum að mati Suðurnesjavaktarinnar.

Öflugar menntastoðir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á Suðurnesjum starfa öflugar menntastoðir en þar fer fremstur í flokki Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Þrátt fyrir allt sem gengið hefur á undanfarna daga þá er FS enn stærsta og öflugasta menntastoð Suðurnesja og mun vera það um ókomna tíð. Fisktækniskólinn, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Samvinna starfsendurhæfing gegna einnig mikilvægu starfi. Á Ásbrú hefur einnig byggst upp öflugt háskólasamfélag en þar er starfræktur Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs.

Virkni- og starfsendurhæfingarúrræði

Á Suðurnesjum eru fjölbreytt virkni- og starfsendurhæfingarúrræði í boði fyrir einstaklinga sem ekki eru á vinnumarkaði, til dæmis vegna veikinda, slysa- og félagslegra erfiðleika. Má þar nefna Samvinnu, Björgina–geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Virkjun og Fjölsmiðjuna. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður einnig upp á ýmis virkniúrræði og á í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun hvað það varðar.

Íþróttir og tómstundir

Suðurnes eru þekkt fyrir góðan árangur í íþróttum og þar er unnið öflugt íþróttastarf með og fyrir börn og unglinga. Má nefna að í vetur urðu karlalið Grindavíkurbæjar og kvennalið Njarðvíkur Íslandsmeistarar í körfubolta og karlalið Keflavíkur bikarmeistarar. Fyrir stuttu náðu Holtaskóli og Heiðarskóli í Reykjanesbæ þeim frábæra árangri að verða í tveimur efstu sætunum í Skólahreysti. Á Suðurnesjum er tónlistarskóli í hverju sveitarfélagi nema í Sveitarfélaginu Vogum. Einnig er öflugt æskulýðsstarf á svæðinu eins og skátarnir, KFUM og KFUK og æskulýðsstarf kirkjunnar.

Fjölbreytt menningarlíf og afþreying

Á Suðurnesjum er að finna fjölbreytt menningarlíf og afþreyingu sem felst meðal annars í blómlegu tónlistarlífi, listviðburðum, söfnum, sýningum og leikhúslífi. Tónlistarlíf á Suðurnesjum er öflugt en þaðan hafa komið margir efnilegir tónlistarmenn og hljómsveitir. Árlegar hátíðir sveitarfélaganna, eins og Ljósanótt í Reykjanesbæ, Sjóarinn síkáti í Grindavík, Sólstöðuhátíð í Garði, Sandgerðisdagar og Bryggjudagar í Vogum, draga að sér fjölda fólks sem setur mark sitt á bæjarlíf sveitarfélaganna. Á Suðurnesjum er einnig í boði fjölbreytt afþreying fyrir börnin. Í Reykjanesbæ er Listahátíð barna haldin árlega og á svæðinu er að finna landnámsdýragarð, Skessuhelli, Fræðasetrið í Sandgerði, Saltfisksetrið í Grindavík og fleira.

Ferðaþjónusta

Síðustu ár hefur starfsemi í ferðaþjónustu færst í aukana á Suðurnesjum. Öll sveitarfélögin hafa að geyma spennandi aðdráttarafl fyrir ferðamenn og má þar nefna Fræðasetrið í Sandgerði, Garðskagavita og fjölbreytt fuglalíf þar í kring, Duushús og Víkingaheima, Kvikuna sem er auðlinda- og menningarhús í Grindavík, að ógleymdu Bláa lóninu. Heilsutengd ferðaþjónusta hefur farið vaxandi á svæðinu þar sem bæði innlendir og erlendir einstaklingar eiga kost á að sameina lækningameðferðir og ferðalag um landið. Á Ásbrú er einnig unnið að uppbyggingu heilsuþorps og á svæðinu er verulegt framboð af húsnæði fyrir margþætta starfsemi. Nálægðin við alþjóðaflugvöll hefur komið sér vel fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.

Fyrirtæki og önnur starfsemi

Starfsemi í tengslum við Keflavíkurflugvöll, Hitaveitu Suðurnesja og Helguvík er mikill styrkleiki fyrir svæðið sem mun koma til með að styrkjast enn frekar á næstu árum. Á Ásbrú, gamla varnarliðssvæðinu, hefur fjöldi fyrirtækja sest að, bæði rótgróin fyrirtæki og frumkvöðlafyrirtæki. Í frumkvöðlasetrinu Eldey eru starfandi um 18 sprotafyrirtæki í tengslum við atvinnuþróunarfélagið Hekluna. Á svæðinu er nóg framboð af húsnæði og tækifærin því mörg. Þróunarfélag Keflavíkur, Kadeco, sér um að koma fasteignum á svæðinu í notkun og vinnur markvisst að því að laða að fleiri fyrirtæki.

Nemendum Keilis fjölgar stöðugt.