Stýrisbúnaður rannsakaður eftir bílveltu
Meðal þess sem verður rannsakað sérstaklega í tengslum við bílveltu á Reykjanesbraut síðdegis í gær, er hvort stýrisbúnaður bifreiðarinnar hafi gefið sig með þeim afleiðingum að bifreiðin valt eina veltu og hafnaði í skurði á milli akreina á framkvæmdasvæði tvöföldunar Reykjanesbrautar.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum vísar annað framhjól bifreiðarinnar til hliðar. Stýrisbúnaður var í sundur við það hjól og gömul skemmd í búnaðinum sjáanleg. Það kann að orsaka það að þegar ökumaður bifreiðarinnar hugðist taka framúr bifreið á Reykjanesbrautinni, missti hann stjórn á bílnum og hafnaði á hvolfi utan vegar.
Fjórir voru í bílnum, tveir fullorðnir og börn á aldrinum 3-4 ára. Börnin sluppu ómeidd, en þeir fullorðnu þurftu aðhlynningu lækna á sjúkrahúsi. Meiðsl voru þó ekki alvarleg.
Myndir: Frá slysstað á Reykjanesbraut síðdegis í gær. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson