Stýrihópur um sameiningu hélt sinn fyrsta fund
- Könnun á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðis
Stýrihópur um sameiningu Garðs og Sandgerðis hélt sinn fyrsta fund síðasta þriðjudag. Hópinn skipa þrír fulltrúar úr hvoru sveitarfélagi, þau Magnús Stefánsson bæjarstjóri, Jónína Hólm bæjarfulltrúi og Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar úr Garði og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri, Daði Bergþórsson bæjarfulltrúi og Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar úr Sandgerði.
Bæjarstjórnir sveitarfélaganna tveggja samþykktu nýlega að vinna að könnun á kostum og göllum mögulegrar sameiningar. Ætlunin er að könnunin verði grundvöllur að samráði við íbúa um mögulega sameiningu. Starfshópurinn mun halda utan um verkefnið og stýra því. Á fundinum á þriðjudag var vinna hópsins skipulögð og rætt hvaða sérfræðingar verða fengnir til liðs við hópinn. Að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði, er gert ráð fyrir að vinna málið hratt og örugglega. Undir þetta tók Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði. „Við ætlum að vinna þetta hratt og vel og síðan kemur í ljós í framhaldinu hvort menn vilja láta staðar numið eða fara í formlegar viðræður sem enda alltaf á kosningu íbúanna.“
Þegar vinnu hópsins verður lokið verður skýrslu skilað til bæjarstjórnanna og á grundvelli hennar tekin ákvörðun um framhaldið. Haldnir verða íbúafundir þegar niðurstöður liggja fyrir og að þeim loknum ákveðið hvort formlega verði kosið um sameiningu meðal íbúa eða málið látið niður falla. Ekki verður gerð tillaga að sameiningu nema nema að undangenginni kosningu meðal íbúa.