Stýrihópur leiti framtíðarlausna DS
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs samþykkir að beina því til sveitarfélagana sem eiga Dvalarheimili aldraðra Suðurnesjum, DS, að bæjarstjórar sveitarfélaganna skipi stýrihóp sem fái það verkefni að leita framtíðarlausna í málefnum DS. Einnig fái stýrihópurinn það verkefni að fjalla um mögulegt samstarf sveitarfélaganna í þjónustu við aldraða.
Stýrihópurinn vinni verkefnið í samráði við þá aðila sem þurfa þykir og skili tillögum til bæjarstjórna sveitarfélaganna hið allra fyrsta. Tillaga þessa efnis var samþykkt samhjóða á fundi bæjarstjórnar Garðs nú í vikunni.
Á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag var einnig samþykkt Ályktun bæjarstjórnar Garðs vegna fundargerðar DS frá 30. október 2012. Þar segir:
„Þann 9. júlí 2004 var gerð sameiginleg yfirlýsing samstarfssveitarfélaga í DS um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ og leiðir til að bæta þjónustu við aldraða á starfssvæði Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Í samkomulaginu kemur m.a. fram sameiginlegur skilningur forsvarsmanna á framtíðarsýn á þjónustu við aldraða og jafnframt er viðurkennt að breytt skipulag sé nauðsynlegt til að stuðla að þróun þar sem einnig sé komið til móts við þörf hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ. Samhliða því sé stefnt að því að vinna að endurbótum og stækkun vistrýma á Garðvangi með það að markmiði að þar geti verið um 30 hjúkrunarsjúklingar og að forsvarsmaður Framkvæmdasjóðs aldraðra hafi lýst yfir vilja til að sjóðurinn styðji það verkefni. Jafnframt koma fram mikilvægar tímasetningar í þróun Garðvangs og nýs hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ. Núverandi bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs ítrekar að sveitarfélögin fjögur sem eru samstarfsaðilar að DS standi við samkomulag það sem undirritað var 2004. Þar kom fram m.a. að á meðan verið væri að byggja upp fyrsta áfanga ( 30 rúm) í Reykjanesbæ væri eðlilegt að bíða með framkvæmdir á Garðvangi. Við það hefur verið staðið og því eðlilegt að Reykjanesbær standi að sama skapi við sitt, svo áfram megi ríkja góð samvinna í öldrunarþjónustu DS“.