Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Styðja meirihlutann í að ná lögbundnu skuldaviðmiði
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórar, f.v.: Margrét, Baldur og Anna Sigríður.
Föstudagur 22. júní 2018 kl. 09:00

Styðja meirihlutann í að ná lögbundnu skuldaviðmiði

- þverpólitískur hópur berjist fyrir heilsugæslunni, segir D-listinn í bókun

D-listi Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ styður nýjan meirihluta í að eitt af forgangsmálum á nýbyrjuðu kjörtímabili sé að ná lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022. Þetta kemur fram í bókun D-listans sem var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ síðdegis á þriðjudag. Bókunin er í níu liðum og tekur á fjármálum og stjórnun, íþróttum fyrir alla, leikskóla- og dagmæðramálum, frístundaskóla, strætó, snjallvæðingu, húsnæðis- og skipulagsmálum, umhverfismálum og heilbrigðismálum.

Í bókuninni óskar D-listinn nýkjörnum meirihluta til hamingju með málefnasamninginn til næstu fjögurra ára og vill á sama tíma koma á framfæri áherslum sínum fyrir árið 2018.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

D- listinn mun síðan leggja fram áherslur sínar á hverju ári út kjörtímabilið.

Þá segir D-listinn að auknu svigrúmi í fjármálum skuli varið í að minnka álögur á íbúa, hlúa að innviðum en alls ekki til að auka bákn sveitarfélagsins. Þá eigi að lækka fasteignaskatta strax til móts við hækkun fasteignamats á síðustu 3 árum og þá miklu hækkun sem taka á gildi þann 1. janúar 2019.

D-listinn fagnar því í bókuninni að núverandi meirihluti setji á oddinn aðferð þá er D-listinn kynnti fyrir kosningar að þverpólitískur hópur yrði myndaður um eflingu heilsugæslunnar. D-listinn telur þó að með stofnun Lýðheilsuráðs um málaflokkinn ásamt öðrum mikilvægum málum verði fókusinn ekki nægur og  mælir því með að myndaður verði sérstakur þverpólitískur hópur til að berjast fyrir heilsugæslunni og að þeim hópi komi einnig heilbrigðisstarfsmenn. Hópurinn vinni að forgangsröðun, setji upp aðgerðaráætlun og tímalínu til að ná árangri.

Bókunina má lesa í heild sinni hér að neðan:

Eftirfarandi bókun var lögð fram á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í Reykjanesbæ 19. júní 2018:
Um leið og fulltrúar D listans óska nýkjörnum meirihluta til hamingju með málefnasamninginn til næstu fjögurra ára vill D listinn koma á framfæri áherslum sínum fyrir árið 2018.  D listinn mun síðan leggja fram áherslur sínar á hverju ári út kjörtímabilið.

    1.    Fjármál og stjórnun
    a.    D listinn styður meirihlutann í að eitt að forgangsmálum sé að ná lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022.  
    b.    Aukið svigrúm í fjármálum skal varið í að minnka álögur á íbúa, hlúa að innviðum en alls ekki til að auka bákn sveitarfélagsins.
    c.    Lækka skal fasteignaskatta strax til móts við hækkun fasteignamats á síðustu 3 árum og þá miklu hækkun sem taka á gildi þann 1. janúar 2019.

    1.    Íþróttir fyrir alla
    a.    Farið verði í stefnumótun með íþróttafélögunum í bænum um uppbyggingu framtíðaríþróttaaðstöðu og staðsetningar íþróttamannvirkja.  Í framhaldi verði gert kostnaðarmat á tillögurnar og teiknuð upp tímasett aðgerðaráætlun í framhaldinu.
    b.    Lausn verði fundin á bráðabirgðaaðstöðu næsta vetur fyrir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur í samráði við deildina.
    c.    Lausn verði fundin á bráðabirgðaaðstöðu næsta vetur fyrir unglingaráð knattspyrnudeildar Keflavíkur í samráði við deildina.
    d.    Unnið verði með íþróttafélögunum í að mæta fjölgun iðkenda, bæði með tilliti til aðstöðu og þjálfara.
    e.    Unnið verði á lausn á heitavatnsmálum í íþróttarvallarhúsi knattspyrnudeildar Njarðvíkur.

    1.    Leikskóla- og dagmæðramál
    a.    Gerð verði tímasett framtíðaráætlun um að öll börn komist á leikskóla þegar að fæðingarorlofi lýkur.
    b.    Gerð verði könnun á áhuga foreldra að næsti leikskóli verði rekinn með þarfir vaktavinnufólks í huga.
    c.    Skoðað verði til bráðabirgða að aðstoða dagmæður með aðstöðu.

    1.    Frístundaskóli
    a.    Skipulag frístundaskóla verði miðlægur og metnaður settur í hann í samvinnu við tómstunda- og íþróttafélög.
    b.    Vinna með tómstunda- og íþróttafélögum um að koma að skipulagi og fjölbreyttum frístundaskóla fyrir öll börn.

    1.    Strætó
    a.    Gera þarfagreiningu á strætóleiðum með þarfir barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi að leiðarljósi sem og með tilliti til opnunartíma 88 hússins og Fjörheima.
    b.    Stefna skal að fríum strætó fyrir börn 18 ára og yngri.

    1.    Snjallvæðing
    a.    Gerð verði áætlun um að samræma og sameina þjónustugáttir Reykjanesbæjar í eina íbúagátt til að einfalda samskipti íbúa við stjórnsýsluna.
    b.    Öll eyðublöð skulu samræmd og rafvædd og afgreiðsla umsókna verði með gagnsæjum hætti svo hægt sé að fylgjast með ferli þeirra.
    c.    Aðgengi að vef Reykjanesbæjar verði bætt meðal annars með því að þýða stærri hluta vefsins yfir á ensku og pólsku, sérstaklega þær upplýsingar er snúa að börnum og unglingum.

    1.    Húsnæðis og skipulagsmál
    a.    Bærinn marki sér stefnu um skipulag miðbæjarins,  hvaða þjónustu eigi að bjóða þar upp á og um gerð þeirra  húsa sem þar standa.   Gott væri að teikna strax upp heildarmyndina.
    b.    Marka þarf skýra stefnu gagnvart staðsetningu gistiheimila, hótela og stærra húsnæðis sem leigt er út í langtímaleigu, m.a. til fyrirtækja sem nýta það til framleigu fyrir farandverkafólk. Reykjanesbær þarf að hafa stjórn á hvar slíkum byggingum er fyrir komið innan sveitarfélagsins. Þá er nauðsynlegt að breyting á eðili starfsemi í slíkum eignum sé í öllum tilfellum kynnt fyrir nágrönnum og sé ekki í andstöðu við íbúa á svæðinu.  D listinn leggur áherslu á að íbúðum farandverkafólks sé  dreift um Reykjanesbæ eins og kostur er.
8.    Umhverfismál
    a.    Mörkuð verði stefna í að Reykjanesbær verði leiðandi í grænni orku og sjálfbærni og að sett verði skýr markmið í átt að kolefnishlutleysi.
    b.    Flokkun á sorpi frá heimilum og fyrirtækjum er mjög aðkallandi verkefni og vinna þarf gegn plastsóun í samstarfi við bæjarbúa, félagasamtök og fyrirtæki í bænum.
    c.    Vinna þarf að grænum samgöngum til framtíðar. Í skipulagsmálum og byggingarskilmálum þarf að gera ráð fyrir rafbílavæðingu og að íbúar og fyrirtæki séu hvattir til að kanna kosti rafbíla.
    d.    Gróðursetja þarf fleiri tré til að kolefnisbinda og skapa með því ákjósanlegt umhverfi til útvistar og afþreyingar.

    1.    Heilbrigðismál
    a.    D listinn fagnar því að núverandi meirihluti setji á oddinn aðferð þá er D listinn kynnti fyrir kosningar að þverpólitískur hópur yrði myndaður um eflingu heilsugæslunnar.  D listinn telur þó að með stofnun Lýðheilsuráðs um málaflokkinn ásamt öðrum mikilvægum málum verði fókusinn ekki nægur.  D listinn mælir því með að myndaður verði sérstakur þverpólitískur hópur til að berjast fyrir heilsugæslunni og að þeim hópi komi einnig heilbrigðisstarfsmenn.  Hópurinn vinni að forgangsröðun, setji upp aðgerðaráætlun og tímalínu til að ná árangri.
    b.    Stuðningur við foreldra vegna kvíða og þunglyndis barna og unglinga þarf að vera aðgengilegur og vel kynntur.

Fyrir hönd D- listans:

Margrét Sanders
Baldur Guðmundsson
Anna Sigríður Jóhannesdóttir