Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stútur neitaði að blása
Föstudagur 20. apríl 2012 kl. 14:37

Stútur neitaði að blása

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í nótt sem leið ökumann vegna gruns um að hann væri ölvaður undir stýri. Maðurinn harðneitaði að hafa neytt áfengis í gærkvöld, þótt af honum væri megn áfengislykt. Hann var tvívegis látinn blása í áfengismæli en gaf ófullnægjandi blástur í bæði skiptin.

Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann enn látinn blása í áfengismæli en bar því þá við að hann gæti ekki blásið þar sem mælirinn væri stíflaður. Með þessu framferði var litið svo á að hann neitaði að gefa öndunarsýni og honum gerð grein fyrir því að slíkt varðaði, samkvæmt umferðarlögum, 100 þúsund króna sekt, auk árs sviptingar ökuréttinda, að viðbættri sekt og sviptingu fyrir ölvunarakstur.

Að því búnu var honum enn gefið tækifæri til að blása en hann þverskallaðist við. Fagaðili var þá fenginn á lögreglustöðina til að taka blóðsýni úr manninum sem hinn síðarnefndi féllst á eftir nokkurt þóf. Prófanir á áfengismælinum sýndu að hann var í fullkomnu lagi.