Stúlka fæddist í sjúkrabíl á Reykjanesbraut

Stúlka fæddist í sjúkrabíl frá Brunavörnum Suðurnesja á Reykjanesbrautinni í nótt. Stúlkunni og móður heilsast vel.

Stúlkan kom í heiminn þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í fimm í morgun en þá var sjúkrabíllinn í Hvassahrauni á bæjarmörkum Voga og Hafnarfjarðar.

Óskað hafði verið eftir sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í nótt til að flytja verðandi móður á fæðingardeild í Reykjavík. Tveir sjúkraflutningamenn voru í bílnum ásamt verðandi móður en enginn ljósmóðir eða læknir voru með í för. Þegar sjúkrabíllinn var að renna út af tvöfaldri Reykjanesbrautinni í Hvassahrauni vildi litla stúlkan koma í heiminn. Það kom því í hlut sjúkraflutningamanna að taka á móti stúlkunni. Það gekk vel og öllum heilsast vel.