Stúdentspróf ekki lengur skilyrði fyrir háskólanámi á Íslandi
Tæknifræði Háskóla Íslands á vegum Keilis býður upp á nýjan valmöguleika fyrir þá sem langar í háskólanám en hafa ekki lokið stúdentsprófi. Stúdentspróf er ekki inntökuskilyrði og hægt er að taka fyrsta námsárið í dreifnámi.
Samkvæmt nýjum inntökuskilyrðum í tæknifræðinámi Háskóla Íslands á vegum Keilis geta umsækjendur sem stundað hafa nám á framhaldsskólastigi en ekki lokið stúdentsprófi fengið inntöku með því að þreyta stöðumat hjá Keili. Við mat á undanþágu er jafnframt tekið mið af starfsreynslu úr atvinnulífinu. Sömu sögu er að segja af þeim sem hafa lokið sveinsprófi og eru með starfsreynslu. Þekking hvers nemenda er metin fyrir sig. Umsækjendur sem uppfylla skilyrði um undanþágu þurfa að sitja undibúningsáfanga á haust- og vormisseri fyrsta árs.
Tæknifræðinámið er þriggja og hálfs árs nám til fullra starfsréttinda í tæknifræði og hentar þeim sem hafa áhuga á að læra að hanna tæknilausnir. Námið er að stórum hluta verklegt en verkleg námsaðstaða hjá Keili er til fyrirmyndar. Í náminu vinna nemendur í litlum hópum og hafa mjög gott aðgengi að kennurum.
Til að auðvelda fólki að hefja nám er nemendum boðið upp á dreifnám á fyrsta námsárinu. Dreifnámið er kennt sjö vikur í einu og hentar þeim sem vilja vinna samhliða námi til að byrja með og/eða þeim sem búa á landsbyggðinni og vilja ekki flytja strax á suðurhorn landsins.
Starfsheitið tæknifræðingur er lögverndað og tæknifræðingar njóta afbragðs starfsréttinda.
Nánari upplýsingar um námið má finna á heimasíðunni kit.is og er umsóknarfrestur um námið til 5. júní 2008.