Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stúdentar mótmæla skólagjöldum
Mánudagur 22. mars 2004 kl. 17:11

Stúdentar mótmæla skólagjöldum

Mörg hundruð stúdentar við Háskóla Íslands, söfnuðust saman fyrir utan aðalbyggingu Háskólans fyrr í dag og mótmæltu hugmyndum um upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands. Háskólafundur hugðist taka málið fyrir í dag, en frestaði ákvörðun fram í maí n.k.
Hörð andstaða er við upptöku skólagjalda sem sést berlega á þeim fjölda sem kom saman í dag, en auk þess hafa rúmlega 5.000 stúdentar skrifað nafn sitt á undirskriftalista gegn skólagjöldum.

Fjöldi fólks af Suðurnesjum stundar nám við HÍ og þeirra á meðal er Guðfinnur Sigurvinsson, stjórnmálafræðinemi. Hann hefur tekið virkan þátt í málefnum stúdenta þar sem hann sat í stúdentaráði og er fyrrverandi formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Guðfinnur upptöku skólagjalda vera háalvarlegt mál. „Það er ekki svo einfalt að segja að LÍN muni lána nemendum fyrir skólagjöldum vegna þess að margir stúdentar gætu átt erfitt með að fá ábyrgðamenn sem þarf fyrir lánum, t.d. gætu foreldrar viðkomandi verið á vanskilalista eða eitthvað þess háttar og þá er jafnrétti allra til náms ekki tryggt.“
Aðspurður um það hvort skólagjöld, ef af þeim yrði, kæmu sér ver fyrir námsmenn utan höfuðborgarsvæðisins sagði Guðfinnur að vissulega gæfi auga leið að landsbyggðarfólk, sem kemur til borgarinnar og þarf t.d. að borga húsaleigu, myndi finna frekar fyrir auknum útgjöldum sem yrðu fylgjandi skólagjöldum.

Allar stúdentahreyfingar Háskólans, hvort sem um er að ræða Vöku, Röskvu eða Háskólalistann, hafa lýst sig andvígar fyrirhuguðum skólagjöldum og vonar Guðfinnur fyrir sitt leyti að háskólayfirvöld taki sönsum og hætti við öll slík áform.

VF-myndir: Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024