Ströng öryggisgæsla í Ólympíuþorpinu
Sundfólkið okkar á Ólympíuleikunum í Sidney, heldur áfram að vera duglegt við að senda okkur skemmtilegar fréttir hinu megin af hnettinum. Í dag flytur liðið frá Wollongong í Ólympíuþorpið í Sidney. Þá er eins gott að vera með passann sinn á vísum stað, því öryggisgæslan í þorpinu er mjög ströng, en þjálfarar sundliðsins fengu m.a. að kenna á því þar sem aðgangspassar þeirra voru gallaðir. Dagarnir hafa liðið nokkuð reglulega - við rútínu - æfingar - borða - hvíla sig - borða - æfa og finna létta afþreyingu. Síðan síðasta skýrsla fór til Sundsambandsins eru liðnir einhverjir dagar. Í gær (miðvikudag), voru sundmenn á veitingastað Harðar Harðarsonar - Sketches - sem er hér í næstu götu. Hann er allur í fiskinum - með ívafi frá Grikklandi og matarmenningu Miðjarðarhafsins. Svo skruppu sundmenn í bíó - og í þetta skipti var myndin beinlínis frábær - og mælt með henni. Hörður býður svo upp á leiðsögn - stuttan túr um nærliggjandi hverfi Wollongong til að skoða sig um - líklega um helgina þegar er frí.Fimmtudagurinn (í dag) fór ég í heimsókn til Sydney - og sundæfingu í keppnislauginni. Það gekk nú á ýmsu við að komast leiðar sinnar - menn gleymdu aðgangs-pössum og svo villtist bílstjórinn inni á Ólympíusvæðinu. Sundfólkið náði sínum markmiðum að mestu - en dagurinn var strangur. Aðstaðan er glæsileg við fyrstu sýn - eins og fram hefur komið frá ÍSÍ - og vonandi fer vel um alla þegar við flytjum okkur á svæðið og byrjum þátttöku í leikunum sjálfum þann 11. september nk. (mánudag). Það verður samt nokkuð þröngt miðað við það sem er hér í hóteldvöl í Wollongong. Sigurlín og Benedikt voru kyrrsett í meira en klukkutíma í dag við hliðið vegna þess að laser-lesarinn gat ekki lesið strikamerkið á aðgangs-passanum. Þau fengu aðgang að lokum - passarnir voru endurnýjaðir og allt fór vel. Þau misstu hins vegar af móttökunni (!!! - en það hellirigndi líka á meðan). Fregnir af þátttöku liðanna og fánahyllingu - fást í síðu ÍSÍ - og við höfum engu við það að bæta. Miðað við það sem við lesum í blöðum hér - um flutningavandræði á Olympíusvæðinu - þar sem íþróttafólki hefur ekki dugaða klukkutímaferð til að komast á æfingar - þá erum við mjög ánægð með það að vera hér í Wollongong - og helst alveg framundir það að keppnin hefst. Frjálsíþróttafólkið ætlar líka að vera hér áfram til 20. sept. - af því að það er næstum alveg vonlaust fyrir suma úr þeim hópi að komast á æfingar í Sydney - vegna vegalengda og vegna þess að skipulagið er ekki nægilega vel smurt.Að gefnu tilefni:Vegna þess að fram hefur komið í fjölmiðlum að miðlun upplýsinga frá Ólympíuleikum er ekki heimil - nema tilgreindum rétthöfum og ekki íþróttamönnum þarf að taka fram að sundfólkið er ekki ennþá komið á leikana í Sydney. Hópurinn flytur inn í þorpið næstkomandi mánudag 11. september. Tímabil leikanna byrjar formlega ekki fyrr en með setningarathöfninni - þann 15. september - þá taka gildi reglur IOC - um framferði íþróttamanna („code of conduct“ er ekki sama og siðaregur!!). Dagbók sundmanna - á undirbúningstímabili - í Wollongong - hefur verið send heim til Íslands - og verður fram til þess tíma sem við flytjum inn á Ólympíusvæðið - og opin þangað til að óbreyttu. Íþróttafólkið mun hins vegar alls ekki senda frá sér upplýsingar - að fyrra bragði - eftir að þátttaka er hafin í leikunum. Fjölmiðlar hafa auðvitað aðgang að íþróttamönnum og starfsmönnum - með þeim takmörkunum sem þjálfarar og fararstjórar setja. Hafa má í huga að Alþjóða ólympíunefndin hefur ekki markað formlega stefnu varðandi Internetið - en hefur samt ótvírætt valdsvið til að túlka gildandi reglur - þannig að það sem staðfest er í reglum um dagblöð - getur náð til netmiðla einnig. Vafasamt er að slík túlkun geti náð til heimasíðna einstaklinga og fráleitt að slíkt gildi sjálfkrafa um upplýsingasíður samtaka eins og ÍSÍ og SSÍ. Vinna IOC við stefnumótun um fjölmiðlun og íþróttir er áformuð eftir leikana í Sydney - og kemur því ekki að gagni nú. SSÍ hafði samband við fararstjóra ÍSÍ fyrirfram vegna dagbókarinnar (á visir.is) og síðan hefur hann ráðfært sig við SOCOG (Framkvæmdanefnd leikanna) - og leitað til IOC (Alþjóða Ólympíunefndin) til að enginn vafi leiki á því hver sé heimild íþróttamanna og starfsmanna til upplýsingamiðlunar og samskipta við aðra fjölmiðla en þá sem eiga samningsbundinn rétt til miðlunar frétta - um leið og vinnuleiðbeiningar IOC verða að fá staðfesta túlkun. Auðvitað má þetta ekkert fara á milli mála. Þetta er undir öllum kringumstæðum eitthvað sem fararstjórn Íþrótta- og Ólympíusambandsins hefur stjórn á og sundmenn eins og aðrir íþróttamenn - hlíta þeirra vinnufyrirmælum. Við höldum að okkur höndum - ef svo má orða það - þar til SOCOG og IOC hafa skoðað málið. Það er samt sem áður alveg ljóst að þegar við flytjum inn á svæðið þurfum við að breyta um aðferðir. Það gerum við í samræmi við niðurstöðu úr þeirri skoðun sem fararstjóri ÍSÍ er með í gangi.Ástæða er til að þakka Björgvin Inga Ólafssyni (hrekkjusvin.is) fyrir að vekja athygli á því vandamáli hvernig markaðsvæðing Ólympíuleika hefur skapað einokun og takmörkun upplýsingamiðlunar og samskipta. Það er ekki okkar skilningur að Björgvin hafi verið að óska þess að við yrðum fyrir einhvers konar ofanígjöf - þvert á móti. Það er ástæða til að hvetja fjölmiðlana heima til að hafa samband við aðalfararstjóra ÍSÍ og við flokkstjóra SSÍ vegna þessarra mála - áður en menn búa til frétt um eitthvað sem ekki er orðið. Forráðamenn sérsambanda ÍSÍ og einstakir íþróttamenn eru mjög meðvitaðir um margvíslegar takmarkanir sem eru á upplýsingamiðlun og ekki síður á auglýsingum og merkingum hvers konar á fatnaði og búnaði. Skýrt bann er t.d. á að bera auglýsingar - þegar um er að ræða æfingasvæði leikanna og keppnissvæðið sjálft og merking framleiðenda þarf að vera innan marka varðandi stærð. Jafnvel þarf að fara varlega með merkingar framleiðenda - af samkeppnisástæðum - þegar menn eru á eigin vegum í kring um verkefnið. Enginn hefur samt ennþá keypt einokun á frásögnum af undirbúningi einstakra keppnishópa - og tjáningarfrelsi íþróttamanna hefur ekki verið endanlega afnumið - nema varðandi miðlun frá tilgreindum atburðum. (Sjá frekar síðu Björgvins http://www.hrekkjusvin.is/bjorgvin.ingi.olafsson/060900.htmlog einnig etv. síðu CNN; http://www.cnn.com/2000/TECH/computing/09/06/athletes.kept.offline.idg/index.html)Heimasíður ÍSÍ ([email protected]) og SSÍ (www.toto.is/sersamb/ssi/ )Tiltekin miðlun upplýsinga fer til sambandanna heima - og þannig frá leikunum og af Íslendingum þar - og verður áfram á heimasíðum ÍSÍ og SSÍ - með þeim tengingum sem þangað finnast. Þangað geta vinir og velunnarar sótt upplýsingar um framvindu mála - auk þess sem flestir alvöru fjölmiðlar munu flytja vandaðar fréttir af fólkinu og framvindu keppninnar þegar leikarnir hefjast.Internetið - og tölvupósturinn:Við höfum loksins aftur fengið tölvusambandið í lag - þetta var ekki nein bilun hjá okkur heldur hafði eitthvað með samskiptin milli landa að gera - og snerti fleiri en okkur. IPASS-kerfið virkar sem sé núna og líka tölvupóstur Telstra (Landsímans í Ástralíu). Tíminn til að sinna samskiptum er hins vegar frekar takmarkaður þegar dagurinn er allur pakkaður - með æfingum og ferðalögum - og tímamunurinn snýr sólarhringnum öfugt. Það er þó alveg ákveðið stefnan að allir komist í póstinn sinn - minnst annan hvern dag. Tölvan hans Ragnars annar kannski ekki öllum - Brians tölva er líka með tengingu - en við höfum bara eina snúru og það er mjög dýrt að kaupa aðra. - Nú svo ef í hart fer þá er netkaffihús hér rétt hjá og menn geta farið þangað og skoðað póstinn sinn og sent - og borgað t.d 3 AUD fyrir (ca. 150 kr.) hvern hálftíma. Frjálsíþróttafólkið hefur líka fengið að nota tölvuna hjá RF - sem eykur álagið um leið. SMS-skilaboðin gang líka á milli - og eru ekki svo dýr - og flestir virðast kunna að nota GSM-símana - þó við mælum með því að sá miðill sé sem minnst notaður vegna kostnaðar. (Við munum auðvitað tryggja aðgang að síma ef menn eru ekki í sambandi sjálfir hvort sem er.) Sundmennirnir eru misjafnlega áhugasamir um að nota síma og tölvusamband - þannig hafði ein móðir samband við flokkstjóra til að kanna hvernig staðan væri hjá sínu barni. Staðan reyndist við skoðun auðvitað alveg í besta lagi - og það var etv. skýringin á takmarkaðri miðlun upplýsinga í því tilfelli - og etv. líka um annað að hugsa eins og gengur.Við vitum ekki alveg hvernig þetta þróast þegar inn í þorpið kemur en IBM-tölvumiðstöðin hefur verið mikið auglýst - og vonandi þjónar hún okkar fólki - til viðbótar við núverandi samband. Þá geta kannski allar mömmur og allir pabbar fengið sín skilaboð strax - að maður nú tali ekki um þá aðra sem eru mikilvægastir (þeir fá svo bara líka SMS-skilaboð kvölds og morgna til viðbótar).Þeir sem hafa ekki fengið upplýsingar frá sínum eru hvattir til að hringja - og senda tölvupóst - annað hvort á [email protected] eða á [email protected]. Síminn hjá flokkstjóra/þjálfurum - GSM (61) (0)419445528 og á hótelinu (61) (0)242246500 (hjá Benedikt -(61) (0)242246510). Það má líka senda SMS.-------------------------------------------------------Það rigndi í Sydney í dag - eftir þriggja mánaða þurrk - og við sáum eldingar á heimleiðinni (þeir sem ekki sváfu). Þeir eru farnir að óttast rigningartímabil meðan á leikunum stendur - vegna þess að það hefur verið óvenjulega þurrt frá því á miðjum vetri (sl. 3 mán). Þetta hljómar auðvitað eins og hver önnur „íslensk svartsýni“- sem segir að mönnum hefnist fyrir gott veður; - ekki satt? Veðrið er aðallega gott miðað við okkar venju - 18-22 gráður um hádaginn - sjaldan mikill vindur - en svalt á morgnana og kvöldin. Fyrsti dagurinn í dag þar sem loftmengun var mjög sýnileg.Við horfum bjartsýn fram á veginn - hér hafa allir verið að vinna vel - og sumir miklu meira en það.Áfram Ísland…….Með góðum kveðjum frá Wollongong (85 km. frá Sydney)Benedikt Sigurðarson formaður SSÍ og flokkstjóri sundliðsins á Ólympíuleikum