Strax á þessu ári fara skuldirnar hratt niður - segir Árni Sigfússon
„Þessi sérstaka áhersla á skuldahlutfall með þessum hætti á þrengingatímum gagnvart sveitarfélögum dregur úr getu okkar til að byggja sterkar stoðir í atvinnulífinu. Reykjanesbær hefur í mörgu þurft að taka við af ríkinu til að skapa sterkan grundvöll fyrir atvinnulífið. Bærinn hefur því fjárfest í mikilvægum atvinnuverkefnum og undristöðum en arður fjárfestingarinnar er tafinn. Það er megin vandinn sem við glímum við,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ um fréttir af skuldastöðu bæjarins í gær.
„Reglurnar eru þannig að reiknaðar eru allar skuldbindingar til næstu áratuga, hvernig sem þær verða til, og þær settar fram sem heildar skuldir sveitarélagsins. Þá eru teknar tekjur sveitarfélagsins fyrir síðasta ár. Reiknaðar heildarskuldir mega ekki fara yfir 150% af þessum tekjum. Í okkar tilviki getum við losað nánast allar skuldir bæjarsjóðs við banka og fjármálastofnanir á þessu ári, um 5-6 milljarða kr. Það er vegna þess að við eigum miklar eignir umfram lögbundin skylduverkefni, sem unnt er að koma í verð og nota til að greiða skuldirnar niður.
Ef tekjurnar fara svo að koma inn vegna atvinnuverkefna, í formi gjalda fyrir aðstöðu , hafnargjöld og útsvar, munu heildartekjur aukast hratt. Þegar þetta fer saman, auknar tekjur og lækkun skulda verður Reykjanesbær fljótur að fara niður fyrir þessar viðmiðanir sem ríkið hefur nú sett fyrir sveitarfélög. Það mun taka okkur mun skemur en 10 ár eins og ríkið virðist setja sem viðmiðun. Strax á þessu ári fara skuldirnar hratt niður - en það veltur á ýmsu með tekjurnar, hvort ný fyrirtæki fá að spretta hér upp og skapa stórauknar tekjur,“ sagði Árni í samtali við VF.