Strandaði í innsiglingunni
Fjölveiðiskipið Sóley Sigurjóns situr fast í innsiglingunni í Sandgerði eftir að það tók niðri snemma í morgun. Ekki hefur orðið vart við neinn leka í skipinu og ekkert amar að áhöfninni en nokkrir skipsverjar hafa verið fluttir í land með léttbátum Landhelgisgæslunnar.
Reynt verður að ná skipinu á flot á kvöldflóðinu. Ekki er talin nein hætta á ferðum.
----