Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Strætó um helgar í Reykjanesbæ
Föstudagur 11. maí 2007 kl. 09:53

Strætó um helgar í Reykjanesbæ

Árni Sigfússon tilkynnti á íbúafundi í Akurskóla í gærkveldi að tekin hefði verið ákvörðun um að bjóða strætisvagnaferðir um helgar í Reykjanesbæ frá og með 15. ágúst n.k.

Sú ákvörðun að veita ókeypis í strætó í Reykjanesbæ árið 2003 hefur þrefaldað fjölda farþega og skilað sér í auknum gæðum þjónustu við íbúana. Umferð einkabíla hefur dregist saman því algengt er að börnum sé ekið til skóla, í íþróttir eða afþreyingu. Aukin notkun strætisvagna eykur umferðaröryggi og minnkar álag á fjölskyldur þar sem skutlið er orðið óþarft.
 
Ákvörðunin um strætó um helgar er í samræmi við framtíðarsýn Reykjanesbæjar 2006 – 2010 og kemur í kjölfar fyrri íbúafunda þar sem mikið hefur verið spurt um þessa þjónustu. Þjónustan mun nýtast vel börnum- og unglingum sem sækja menningar-, íþrótta- og tómstundastarf um helgar en leiðarkerfið tekur mið af því og fer strætó fram hjá helstu íþróttamannvirkjum, tónlistarskóla og annarri tómstundastarfsemi. Einnig ætti strætó um helgar að nýtast vel öðrum íbúum.

Ferðum á lífæð verður jafnframt fjölgað og skoðuð tenging við Dalshverfi og Vallarsvæði. Einnig er Reykjanes Express í skoðun en þar er um að ræða strætisvagnaferðir sem tengjast leiðarkerfi strætó í Reykjavík.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024