Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stóru-Vogaskóli kominn með Grænfána
Laugardagur 21. september 2013 kl. 08:20

Stóru-Vogaskóli kominn með Grænfána

Eftir tveggja ára undirbúning er Stóru-Vogaskóli loksins farinn að flagga Grænfána.
 
Fulltrúi frá Landvernd, Gerður Magnúsdóttir, kom á þriðjudag og gerði úttekt á skólanum. Hún fór í heimsókn í nokkrar stofur og talaði við nemendur og starfsfólk auk þess að lesa um það sem gert hefur verið. Niðurstaðan varð sú að við skyldum fá grænfána og kom Gerður aftur í gær og afhenti fánann í Tjarnarsal að viðstöddum öllum nemendum og starfsfólki. Gerður fór í heimsókn í nokkrar stofur, talaði við nemendur og það var virkilega gaman að heyra hvað allir voru með á nótunum.

Umhverfisnefnd skólans, sem í eru nemendur og starfsfólk, fylgist með umhverfismálum, kemur með tillögur til úrbóta og útbýr stefnu skólans í umhverfismálum, sem sjá má á heimasíðu skólans.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða um lönd sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.  Nú taka þátt skólar með u.þ.b. 10 milljón nemendum í 60 löndum, þar af um 230 á Íslandi.

Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglega umgengni og rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.

Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Grænfáni mun væntanlega blakta við hún við Stóru-Vogaskóla næstu 2 árin, en þá verður gerð úttekt á ný og metið hvort skólinn skuli halda fánanum, en til þess þarf að sýna úthald og framfarir.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024