Stóru-Vogaskóli í forystu fjölþjóðlegs verkefnis
Glatt var á hjalla í Stóru-Vogaskóla fyrir helgi þegar gestakennarar frá fimm löndum unnu með kennurum skólans í 1. og 2. bekk.
Heimsókn þessi var liður í nýju og spennandi verkefni sem nefnist The World Around Us þar sem fimm þjóðir taka þátt ásamt Íslandi, Noregur, Tékkland, Bretland, Belgía og Frakkland. Verkefnið gengur út á að efla tungumálakennslu í yngstu bekkjum grunnskóla. Stóru-Vogaskóli er einmitt í forystu þessa verkefnis og eru kennararnir Sigríður Ragna Birgisdóttir og Inga Sigrún Atladóttir umsjónarmenn þess. Því var fyrsti hluti verkefnisins haldinn hér á landi, en á næstu þremur árum verða mikil samskipti á milli samstarfsskólanna, bæði kennara og nemenda.
Þegar blaðamaður Víkurfrétta leit við í skólanum var mikið um að vera þar sem belgíski kennarinn dansaði um alla stofuna með börnunum, syngjandi vísur á flæmsku og Vogabörnin tóku hressilega undir. Af því má greina að kennsluaðferðirnar eru nokkuð frjálslegri en almennt gengur og gerist en verkefnið gengur einmitt út á það að nemendur læri tungumál í gengnum umhverfið og skiptist á upplýsingum, myndum, sögum, leikjum, söngvum, og áhugaverðum stöðum í umhverfinu.
Eitt aðaltakmark verkefnisins er að kynna börnin fyrir öðrum menningarheimum. Fyrsta árið er áherslan á skólann og leikvöllinn. Meðal þess sem börnin gera það árið er að skiptast á kynningarmyndböndum um skólana sína. Þau senda myndir af leikvöllunum og í því sambandi búa þau til fjölþjóðlega orðabók sem er unnin þannig að börnin skrifa inn nöfnin á þeim leiktækjum sem finna má á hverjum leikvelli fyrir sig á þeirra tungumáli. Annað árið verður unnið með nánasta umhverfi barnanna, og það þriðja er áhersla á héraðið sem börnin búa í. Vinna börnin þá saman að ferðabók þar sem þau taka myndir eða teikna myndir af stöðum sem eru áhugaverðir í sinni heimabyggð og senda sín á milli með stuttum texta.
Gestakennararnir voru hér á landi í fjóra daga og sögðu í samtali við Víkurfréttir að þau væru afar ánægð með dvölina. Það sem kom þeim mest á óvart var hversu mikið var líkt með börnum hér á landi og jafnöldrum þeirra. Íslensku börnin væru þó ef til vill aðeins betri í enskunni en gengur og gerist í heimalöndum kennaranna.
VF-mynd/Þorgils