Stórtækur fíkniefnasali stöðvaður
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið stórtækan fíkniefnasala í umdæminu. Upphaflega voru afskipti höfð af manninum, sem er um fertugt, þar sem hann var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og staðfestu sýnatökur á lögreglustöð að hann hafði neytt amfetamíns. Lögregla fór síðan í húsleit á heimili hans eftir að hann hafði heimilað slíka leit. Þar fundu lögreglumenn rúmlega 100 grömm af amfetamíni, sem var að stærstum hluta geymt í frysti. Einnig fannst lítilræði af kannabisefnum.
Maðurinn viðurkenndi að hafa lagt stund á sölu fíkniefna og jafnframt að hann hefði ekið undir áhrifum slíkra efna.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.