Stórt skref fyrir ferðaþjónustu á svæðinu
Dr. Ross K. Dowling prófessor í ferðamálafræði við ECU háskólann í Ástralíu heimsótti Ísland á dögunum. Hann er einn virtasti sérfræðingur heims á sviði jarðminjaferðamennsku sem er skilgreind sem ferðaþjónusta sem byggir á sérstæðri jarðfræði og nýtur stöðugt meiri vinsælda á heimsvísu. Fyrir um 10 árum síðan fékk Dr. Dowling þá hugmynd að gera út á ferðamennsku sem sneri að jarðfræði og landslagi. UNESCO og heimsminjaskrá voru þá þegar byrjuð að vinna að svokölluðum jarðvangi þar sem lagt væri upp úr slíkri ferðamennsku. Dr. Dowling er mikill talsmaður þess að jarðfræðileg fyrirbæri verði betur tengd inn í ferðamál sem aðdráttarafl. Geotourism kallar hann það á enskunni en kalla mætti það jarðvangsferðamennsku. Það eru u.þ.b. 100 jarðvangar í heiminum í dag og er aðeins einn þeirra á Íslandi. Hann kallast Katla Geopark og er 9542 ferkílómetrar að stærð. Dr. Dowling aðstoðaði m.a. við umsóknarferli garðsins. Er jarðvangurinn staðsettur í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra. Ólíkt þjóðgarði þá eru jarðvangar ekki verndaðir af ríkisstjórnum.
„Ég hélt að ég væri með þessa frábæru nýju hugmynd en þá voru hjólin þegar byrjuð að snúast. Tíu árum síðar hefur svo ferðamennska tengd jarðfræði aukist gríðarlega um heim allan,“ sagði Dr. Dowling þegar blaðamaður Víkurfrétta hitti hann og Wendy konu hans á dögunum þegar þau voru stödd hérlendis.
Bæjarfélög á Suðurnesjum eru með metnaðarfullar áætlanir um stofnun jarðvangs á Reykjanesi og þess vegna voru Ross og Wendy í heimsókn á Íslandi en þau hafa þó dvalið hér áður og hefur Ross m.a. kennt við Háskóla Íslands.
Bæjarfélögin á Suðurnesjum ætla að efla ferðaþjónustu sem og vísindarannsóknir á svæðinu með stofnun jarðvangsins. Jarðvangsferðamennska hefur sótt í sig veðrið á síðustu árum en það er ferðaþjónusta sem byggir aðdráttarafl sitt á náttúru og leggur höfuðáherslu á varðveislu ásýndar landsins. Horft er á svæðið sem eina heild og leitast við að ferðamaðurinn nái að upplifa söguna, menningu, landslag, jarðfræði, matarmenningu, listir og handverk sem og staðbundið gróðurfar og dýralíf. Leitast er við að gera ferðamanninum kleift að upplifa fyrrnefnda þætti í sátt við íbúa svæðisins og áhersla lögð á vellíðan ferðamannanna sem og einnig vellíðan íbúanna.
Jarðvangur á Reykjanesi myndi sýna fram á samspil náttúru og menningar að fornu og nýju. Og þegar litið er til þess að á svæðinu er m.a. Bláa lónið, 100 gíga garður, hrikaleg og ægifögur strandlengja og stórbrotnar gönguleiðir. Það er trú manna og von að það felist mikil tækifæri í jarðavanginum sem skili sér í fjölgun ferðafólks á svæðinu, eflingu vísindarannsókna, meiri samvinnu og uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Margt þarf að vera til staðar svo að jarðvangur af þessu tagi verði samþykktur. Ekki einungis þarf ferðaþjónustan að snúa að fyrirbærum í jarð- og landmótunarfræði, heldur þarf svæðið að leggja áherslu á menntun tengdri jarðfræði og síðast en ekki síst þarf að varðveita sögu, t.d. steingervinga, ýmissa steinefnasambanda og landmótunar. Með ferðamennsku á slíkum svæðum er ætlað að fjármagna jarðvanga svo hægt sé að huga að verndun svæðisins.
Þau Ross og Wendy vilja binda skilgreiningu jarðferðamennsku eingöngu við staði sem eru einstakir hvað varðar jarðfræði og landmótunarfræði. Þau leggja þá áherslu á staði sem hafa yfir að ráða landsvæði sem er einstakt jarðfræðilega og varðveitir t.d. steingervinga, sögu landmótunar og flókin steinefnasambönd. Ferðamennska á þess konar svæðum ætti að vera aðgerðarlaus skemmtun þar sem fólk kemur til að skoða og læra að meta þessi fyrirbæri. Með því að læra um náttúruna og á sama tíma njóta hennar með því að ferðast um hana og leysa ýmis verkefni.
Mikið tækifæri fyrir Reykjanesið
„Ef jarðvangur er samþykktur hjá UNESCO þá mun fólk víðsvegar um heiminn vita af því um leið. Jarðvangurinn yrði umsvifalaust hluti af stóru samskiptaneti milli slíkra garða. Árið 2004 voru ekki neinir slíkir garðar til en nú eru þeir orðnir 100. Það er fjöldi fólks, og í raun stórt samfélag af fólki sem er að heimsækja þessa garða árlega. Fólk utan Íslands veit t.d. ekki að Reykjanes sé verndarsvæði og margt áhugavert að sjá hér, en um leið og svæðið verður samþykkt sem jarðvangur þá mun fjöldi fólks vita af því,“ sagði Dr. Dowling.
Þau hjónin, í samstarfi við Kristján Pálsson hjá Markaðsstofu Suðurnesja, ætla nú í ágústmánuði að standa fyrir ráðstefnu hér á svæðinu þar sem rætt yrði um ferðamennsku tengdri jarðfræði og landslagi. Með þessu vilja þau auka möguleika Reykjaness á því að hljóta samþykki frá UNESCO um að verða að jarðvangi. Áður hafa hjónin staðið fyrir þremur slíkum ráðstefnum víða um heiminn og Dr. Dowling hefur einnig skrifað nokkrar bækur er varða ferðamennsku.
„Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa unnið að stofnun geoparks á Reykjanesi í nokkur ár og kynnt það á ráðstefnum m.a. á Suðurnesjum. Það var því ánægulegt að sveitarfélögin skuli taka svo vel í þessa hugmynd sem raun ber vitni um og er það stórt skref fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Ferðamálasamtökin telja að yfirlýsing sveitarfélaganna muni tvímælalaust efla ferðaþjónustuna á Reykjanesinu og styrkja innviðina,“ sagði Kristján Pálsson hjá Markaðsstofu Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir.
Það var á alþjóðlegri ráðstefnu um geotourisma í Oman sl. haust að ákveðið var að halda næstu alþjóðlegu ráðstefnu um geotourisma á Íslandi og þá á Reykjanesinu. Ferðamálasamtök Suðurnesja og Markaðsstofa Suðurnesja verða gestgjafar ráðstefnunnar sem haldin verður í Andrews menningarmiðstöðinni og Keili á Ásbrú 25.-28. ágúst 2013.
Dr. Professor Ross Dowling og Wendy voru hér gagngert til að undirbúa ráðstefnuna og ganga frá lausum endum, ræða við aðila hér á Suðurnesjum og í Reykjavík m.a. ferðamálastjóra og stjórn Reykjanes Geopark en þau koma aftur í vetur til frekari undirbúnings. Heimasíða ráðstefnunnar verður opnuð núna í vikunni en fyrirlesarar eru m.a. frá Ástralíu, USA, Asíu og Íslandi.
„Þessi ráðstefna er mikið tækifæri fyrir Reykjanesið en í kjölfar hennar verða blaðaskrif í erlendum fjölmiðlum og sá sístækkandi hópur ferðamanna sem vill vita meira um landið okkar fær úr miklu að moða,“ sagði Kristján að lokum.
Viðtal: Eyþór Sæmundsson