Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórsigur Keflvíkinga í Frakklandi
Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 22:23

Stórsigur Keflvíkinga í Frakklandi

Keflavík er í vænlegri stöðu í sínum riðli í Bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik eftir glæsilegan og sannfærandi sigur á franska atvinnumannaliðinu Reims Champagne, 94-106 á heimavelli Frakkanna.

Keflvíkingar tóku stjórnina með ótrúlegum kafla í fyrsta leikhluta þar sem þeir völtuðu yfir gestgjafana. Staðan eftir hann var 25-40. Vörnin var með eindæmum og Nick Bradford og Magnús Gunnarsson voru sjóðheitir fyrir utan 3ja stiga línuna. Hittu þeir báðir úr öllum þremur skotum sínum.

Í öðrum leikhluta sóttu Reims-menn á og minnkuðu muninn í 53-62. Svæðisvörn Keflvíkinga réði illa við Ryan Fletcher sem var kominn með 20 stig í hálfleik.
Nick Bradford var með 21, Magnús Gunnarsson með 16 og Anthony Glover var með 14 stig.

Í þriðja leikhluta byrjuðu Keflvíkingar vel og fóru aftur upp í 15 stiga mun, en á síðustu 4 mínútunum skorðu Reims 16 stig á móti 4 frá Keflavík.  Munurinn var kominn í 5 stig, 78-83 þegar haldið var í fjórða leikhlutann.

Þar tóku Íslendingarnir aftur öll völd og sigldu örugglega framúr. Þrátt fyrir að Frakkarnir skoruðu síðustu 6 stigin var sigurinn öruggur og tala lokatölurnar sínu máli.

Keflvíkingar hafa skrifað nýtt blað í sögu íslensks körfuknattleiks með frammistöðu sinni í Evrópukeppninni í ár og í fyrra. Árangur þeirra nú og í Norðurlandamótinu sýnir svo ekki verður um villst að körfuboltinn hérlendis á fullt erindi í stærri keppnir.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, var að í skýjunum í leikslok. „Við mættum tilbúnir í leikinn og spiluðum með ótrúlegum krafti í byrjun. Þetta sannar það að við getum spilað svona hvar sem er og unnið hverja sem er.“

Skotnýting Keflvíkinga var með eindæmum í leiknum þar sem þeir voru með rúmlega 60% nýtingu úr tveggja stiga skotum og hittu úr 14 af 26 3ja stiga skotum. Bradford átti stórleik þar sem hann skoraði 29 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Magnús Gunnarsson, fallbyssa þeirra Keflvíkinga kom skammt á eftir með 25 stig og 7 fráköst. Magnús hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum.
Anthony Glover skoraði 29 stig og tók 12 fráköst og Jón Norðdal, sem meiddist í bikarleikjunum um síðustu leikjunum, kom sterkur inn og skoraði 10 stig.

Keflavík lýkur riðlakeppninni með tveimur útileikjum í byrjun næsta mánaðar, en þeir leika gegn Bakken Bears þann 7. desember og gegn Madeira tveimur dögum síðar.

Tölfræði leiksins

VF-myndir úr safni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024