Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórkostleg flugeldasýning á Ljósanótt - 20 þúsund gestir
Frá flugeldasýningunni í gærkvöldi. Eigum við að ræða þetta eitthvað? Ljósmyndir: Hilmar Bragi
Sunnudagur 2. september 2012 kl. 13:03

Stórkostleg flugeldasýning á Ljósanótt - 20 þúsund gestir

Veðurguðirnir héldu í sér eftir fremsta megni á laugardegi Ljósanætur. Þannig fóru hátíðahöldin fram í mun betra veðri en á horfðist og það var ekki fyrr en dagskrá lauk í gærkvöldi að þeir slepptu loks fram af sér beislinu og skvettu hressilega úr sér.

Ekki er orðum aukið að gestir Ljósanætur, sem áætlað er að hafi verið í kringum 20.000, hafi fylgst agndofa með stórkostlegri flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Suðurnes, þar sem flugeldar tókust á loft bæði ofan af Berginu svokallaða, sem og af haffletinum sjálfum, rétt utan við hátíðarsvæðið og sköpuðu einstakt sjónarspil sem uppskar undrunar- og fagnaðaróp viðstaddra.

Framan af kvöldi var boðið upp á glæsilega tónleika þar sem m.a. var söngsyrpa tileinkuð minningu systkinanna Ellýjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar í flutningi Suðurnesjamannanna Valdimars og Sigurðar Guðmundssona auk Ragnheiðar Gröndal og Sigríðar Thorlacius. Ekki tók verra við þegar hljómsveitin Nýdönsk steig á svið og hristi vel upp í mannskapnum. Það var síðan gæðasveitin Retro Stefson sem tók við að flugeldasýningu lokinni og sló botninn í frábært kvöld.

Fjórði dagur hátíðahaldanna tekur við í dag og þá skapast tækifæri til að skoða þær sýningar sem gestir hafa ekki komist yfir í þéttri dagskrá Ljósanætur. Þá ætlar töframaðurinn Einar Mikael að freista þess að slá Íslandsmet í hópgaldri með þátttakendum á töfrabragðanámskeiði og lokasýningar verða á hinum mögnuðu tónleikum Með blik í auga II, Gærur, glimmer og gaddavír þar sem tónlist 7. og 8. áratugarins er tekin fyrir og hefur fengið frábærar móttökur.

Reykjanesbær þakkar gestum Ljósanætur fyrir frábæra helgi, óskar öllum góðrar heimferðar og vonast eftir að hitta ykkur á nýjan leik að ári, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flugeldar sprungu einnig á haffletinum.