Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórir pollar á vellinum og vallarhúsið í Njarðvík farið að láta á sjá
Laugardagur 23. október 2021 kl. 06:43

Stórir pollar á vellinum og vallarhúsið í Njarðvík farið að láta á sjá

– Komið að þolmörkum á mörgu og tími kominn á uppfærslu eða endurnýjun við Afreksbraut

Staða knattspyrnudeildar Ungmennafélags Njarðvíkur og rekstrarsamningur íþróttasvæðis var til umfjöllunar í bæjarráði Reykjanesbæjar sem hefur samþykkt að leggja til eina milljón króna til að ganga frá knattspyrnuvellinum við Afreksbraut 10 fyrir veturinn. Bæjarráð samþykkir flutning fjárheimilda milli deilda. Formaður UMFN ritaði erindi til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um stöðu knattspyrnudeildar UMFN og rekstrarsamning íþróttasvæðis.

„Knattspyrnudeild Njarðvíkur, með samþykki formanns aðalstjórnar, sendir ykkur erindi þetta er varðar stöðu knattspyrnudeildarinnar og rekstrarsamning íþróttasvæðisins við Afreksbraut 10. Það er óþarfi að hafa orðalengingar um fortíðina, brostin loforð og bága aðstöðu. Núgildandi samningur um rekstur íþróttasvæða í Reykjanesbæ sem gerður var við knattspyrnudeildina 26. janúar 2021 var að fjárhæð kr. 13.030.000. Deildin telur að hækka þurfi fjárhæðina verulega fyrir nk. tímabil. Líkt og kom fram á 126. fundi ÍT-ráðs, er Einar Friðrik Brynjarsson, umhverfisfræðingur, mætti sem gestur undir liðinn, kostir og gallar þess að leggja gras eða gervigras á knattspyrnuvelli, þá er undirlagið á Rafholtsvelli verulega slæmt, og hefur verið það frá fyrsta degi. Aðspurður um það hvort hagstæðast væri að fletta ofan af vellinum og setja gervigras í staðinn sagði Einar að með mikilli vinnu og miklu viðhaldi yrði möguleiki að ná vellinum góðum. Með mikilli vinnu síðustu tvö sumur, ásamt tilheyrandi kostnaði, hefur knattspyrnuvöllurinn við Afreksbraut 10 (Rafholtsvöllurinn) aldrei verið betri. Hins vegar er enn langt í land, völlurinn drenar illa og þegar rignir mikið myndast stórir pollar á vellinum. Jafnframt er vallarhúsið farið að láta á sig sjá. Í sumar var borið á allt húsið og síðastliðinn vetur að okkar frumkvæði og á eigin kostnað bjuggum við til 15x30 metra gervigrasvöll. Hins vegar er komið að þolmörkum á mörgu og tími kominn á uppfærslu eða endurnýjun:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
  • Í klefum er farið að sjást á gólfum

  • Sturtuklefar farnir að vera ljótir

  • Gólf farin að molna niður vegna utanaðkomandi bleytu

  • Hurðar orðnar lélegar og sumar hverjar ónýtar

  • Þakrennur ónýtar

  • Bæta þarf lýsingu á húsinu

  • Gólfdúkurinn er orðinn mjög lélegur í öllu húsinu

  • Áhaldageymsla fyrir vélar og tæki er orðin mjög léleg, hún er staðsett í tveimur gámum við enda vallarhússins og hvorki tengd rennandi vatni né rafmagni og leka gámarnir einnig þannig að vélar og áhöld eyðileggjast fljótt þar inni.

Ofangreindur listi er einvörðungu hluti af þeim verkefnum sem þarf að ráðast í. Það má einnig nefna framkvæmdir líkt og að ganga frá pallinum við völlinn sem gerður var fyrir þremur árum, bæta aðstöðu fyrir fjölskyldufólk og börn, loka stúkunni, heildaryfirhalningu á vallarhúsinu utandyra o.fl. en deildin tók saman fyrr í sumar framkvæmdir sem þurfti að ráðast í.

Í samantekt sem finna má á fylgiskjali eitt er áætlun um rekstur vallarins með hliðsjón af þeim kostnaði sem deildin hefur þurft að leggja út þetta sumarið. Þessi áætlun er gerð til að viðhalda núverandi ástandi. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum áhöldum, neinni útkeyptri vinnu við viðhald á öðru en sjálfu grassvæðinu. Líkt og sjá má þá vantar nokkuð upp á það að möguleiki sé að reka deildina með fullnægjandi hætti. Stjórn deildarinnar óskar því eftir að bætt verði í samningsfjárhæð rekstrarsamningsins fyrir árið 2022. Stjórn deildarinnar sér jafnframt ekki fram á það að möguleiki sé að ganga frá vellinum fyrir veturinn með fullnægjandi hætti þar sem fjármagn er ekki til staðar til þess að tappagata og sanda allt svæðið. Óskar stjórn knattspyrnudeildarinnar þar af leiðandi eftir fjármagni frá Reykjanesbæ til þess að ganga frá vellinum, til að hið góða starf sem unnið hefur verið sumrin 2020 og 2021 fari ekki út um gluggan yfir veturinn. Neðangreindur kostnaður er við að tappagata allt svæðið, samtals um 21.800 m2:

Tappagötun: 20,8 kr./m2 * 21.800 = kr. 453.440,-

Sandur: kr. 1.200.000,- (u.þ.b. 12.000 kr./m3)

Samtals: kr. 1.653.440,-

Stjórn deildarinnar vill að endingu enn og aftur lýsa yfir ánægju sinni og þakklæti fyrir framlag Reykjanesbæjar. Deildin hefur fengið framlag í formi starfsmanna, sértækum COVID-styrkjum ásamt reglulegu fjárframlagi. Rekstur íþróttafélaga getur verið snúinn, hvað þá á tímum sem þessum, þar sem óvissan ræður ríkjum. Íþróttastarf er hins vegar hornsteinninn í hverju samfélagi og þurfum við í Reykjanesbæ að hlúa vel að því. Hvort það snýr að æskulýðsstarfi eða afreksstarfi,“ segir í erindinu sem Ólafur Eyjólfsson, formaður, sendir fyrir hönd Ungmennafélags Njarðvíkur.