„Störfum við matvælaframleiðslu“
„Viðskiptavinir okkar eru kröfuharðir og vilja fá góða vöru,“ segir Halldór Smári Ólafsson hjá Haustaki á Reykjarnesi en fyrirtækið sérhæfir sig í þurrkun á ýmsum fiskafurðum. Fyrirtækið flytur afurðirnar út til Nígeríu en þurrkunin gerir það að verkum að geymsluþol fisksins verður mun betra auk þess sem þyngd hans rýrnar um 80% við þurrkun. Þurrkunin fer fram í sérhönnuðum þurrkklefum í húsnæði fyrirtækisins á Reykjarnesi. Frá þessu er greint á vef LÍÚ.
„Hér áður fyrr var litið á hausana sem úrgang og þeim oft hent. Í dag hefur þetta breyst til mikilla muna. Við erum matvælaframleiðslufyrirtæki og öll umgjörð þarf að uppfylla þær kröfur,“ segir Halldór. Fyrirtækið þurrkar bæði hausa, bein og skreið. Mest þorskhausa en þó hefur færst í vöxt þurrkun á ufsa, ýsu, keilu og löngu og fleiri tegundum. „Í Nígeríu eru beinin soðin niður og notuð í súpur og fleira enda fæst mikill kraftur úr hausunum."
„Útlendingar sýna þessu fyrirtæki mikinn áhuga enda fer hér saman fullnýting hráefnis og nýting endurnýtanlegrar orku. Við eigum meðal annars von á yfir 100 manna hópi erlendra sendiherra nú í júní.“ Haustak var stofnað árið 1999 en það er í eigu Þorbjarnar hf og Vísis hf í Grindavík.