Stórframkvæmdir við Bláa lónið
Um hádegi í dag losuðu Eðvarð Júlíusson, stjórnarformaður Bláa Lónsins hf og Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, fyrstu hraunhelluna til marks um að framkvæmdir við nýja og glæsilega meðferðarstöð fyrir psoriasissjúklinga séu hafnar. Meðferðarstöðin verður tekin í notkun vorið 2005. Kostnaður við bygginguna nemur um 400 milljónum króna.
Í tilkynningu frá Bláa Lóninu segir að uppbyggingin sé samvinnuverkefni Bláa Lónsins hf og íslenskra stjórnvalda og að um tímamótaverkefni á Íslandi er að ræða bæði fyrir heilsutengda ferðaþjónustu og þjónustu fyrir íslenska húðsjúklinga.
Sigríður Sigþórsdóttir, aðalhönnuður Bláa Lónsins - heilsulindar, er einnig aðalhönnuður meðferðarstöðvarinnar. Nýja meðferðarstöðin mun líkt og heilsulindin falla vel inn í umhverfið t.d. verður hraunið á svæðinu notað sem klæðning á útiveggi. Baðlónið verður byggt upp á sama hátt og lón heilsulindar og er gert ráð fyrir 50 fm innilaug ásamt 400 fm útilóni sem möguleiki er á að stækka.
Góð aðstaða verður á meðferðarsvæði en þar verða m.a. sérútbúið hvíldarherbergi þar sem gestir geta slakað á eftir böð og ljósameðferðir, nuddherbergi og herbergi fyrir skoðanir og læknisviðtöl.
Boðið verður upp á 15 rúmgóð og vel hönnuð tveggja manna herbergi með baðherbergi og verönd. Sjónvarpstæki og tölvutengingar verða á öllum herbergjum. Afþreyingarherbergi og tækjasalur þar sem gestir geta stundað likamsrækt verða einnig til staðar ásamt rúmgóðri setustofu og matsal.
Um Bláa Lónið – Heilbrigðisþjónustu
Bláa Lónið hf hefur rekið meðferðarstöð fyrir psoriasissjúklinga í Svartsengi frá árinu 1994. Meðferðin hefur hlotið viðurkenningu íslenskra heilbrigðisyfirvalda og greiðir Tryggingastofnun Ríkisins hlut íslenskra sjúklinga. Frá árinu 1997 hafa heilbrigðisyfirvöld einnig greitt fyrir hlut íslenskra sjúklinga á Hótel Norðurljós í Svartsengi til að auðvelda sjúklingum af landsbyggðinni að stunda meðferðina.
Auk þess að hafa hlotið viðurkenningu innlendra heilbrigðisyfirvalda hefur Bláa lónið einnig hlotið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda í Færeyjum og Danmörku og greiða viðkomandi heilbrigðisyfirvöld fyrir meðferð þarlendra sjúklinga. Vinsældir meðferðarinnar hafa aukist mikið á undanförnum árum. Fjöldi meðferða jókst úr 2000 meðferðum árið 1994 í 6585meðferðir árið 2003. Auk þess að njóta vinsælda meðal innlendra meðferðargesta dregur Bláa lónið nú að sér meðferðargesti frá ólíkum heimshornum. Gestir okkar koma frá 18 þjóðlöndum bæði nágrönnum okkar í Norður Evrópu sem og fjarlægum löndum eins og Taílandi.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Eðvarð Júlíusson, stjórnarformaður Bláa Lónsins hf og Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra losuðu fyrstu hraunhelluna í dag og með því eru framkvæmdir við nýja meðferðarstöð fyrir psoriasissjúklinga við Bláa Lónið.