Stórframkvæmdir framundan hjá Reykjaneshöfn
Áætlað er að verja hátt í hálfum milljarði í framkvæmdir á vegum Reykjaneshafnar á þessu ári, samkvæmt því sem fram kom á framkvæmdaþingi Reykjanesbæjar nú fyrir helgi.
Ljóst er að vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda þarf að ráðast í umtalsverðar framkvæmdir í Helguvíkurhöfn. Reykjaneshöfn ráðgerir að hefja útboð á dýpkun hafnarsvæðisins nú í sumar.
Áætlað er að dýpka u.þ.b. 250 þúsund rúmmetra og nota efnið í 150 metra langan sjóvarnargarð sem mun skýla nýjum 360 metra löngum viðlegukanti fyrir súráls- og gámaskip. Verktími dýpkunarinnar er 12 mánuðir og ætla má kostnaður á þessu ári verði um 300 milljónir króna. Áætlað er að reka niður stálþil vorið 2009.
Strax í næsta mánuði er áætlað að hefja framkvæmdir fyrir allt að 100 mkr, sem fara í lagnir, lýsingu og malbikun á athafnasvæðinu í Helguvík. Lóðaúthlutun atvinnusvæða Reykjanesbæjar fer nú fram í suðvesturhorni Helguvíkur og við svokölluð Hólamið. Ráðist verður í lokafrágang á sjóvörn meðfram strandlengjunni og steyptir verða göngustígar.
Mynd/Oddgeir Karlsson: Horft yfir Helguvíkurhöfn.