Störf utan álvers skila helmingi nýrra atvinnutækifæra
Fyrirhugað álver í Helguvík skilar liðlega helmingi nýrra starfa í Reykjanesbæ á næstu 4 árum, samkvæmt athugunum ráðgjafarfyrirtækisins Capacent. Í skýrslu Capacent , sem kynnt var í byrjun febrúar sl. kemur fram að á næstu 4 árum muni útsvarstekjur Reykjanesbæjar aukast um 4,3 milljarða kr. vegna nýrra atvinnutækifæra. Í heild skapast um 6500 ársverk á tímabilinu en 65% þeirra eru talin koma fram í Reykjanesbæ. Þar af er þáttur álversins í Helguvík áætlaður 53%, sem samsvarar 2,3 milljörðum kr. í útsvarstekjur. Það þýðir að um 2 milljarðar króna eru áætlaðir í útsvarstekjur vegna annarra verkefna sem eru í gangi eða undirbúningi.
Athygli vekur að áætlaðar tekjur utan álversins eru hærri en heildaráætlun Reykjanesbæjar sjálfs gerir ráð fyrir. Reykjanesbær gerir ráð fyrir að úrsvarstekjur vegna allra nýrra atvinnuverkefna á næstu 4 árum verði 1,5 milljarðar kr. Bæjarstjóri hefur sagt að áætlun bæjarins sé varfærin, en skili þó umskiptum í rekstri bæjarins ef tölur Reykjanesbæjar gangi eftir, hvað þá ef tölur Capacent ganga eftir.
„Ef aðeins fjórðungur af tölum Capacent gengur eftir eftir, þýði það mjög jákvæð umskipti í rekstri hjá Reykjanesbæjar,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í samtali við Víkurfréttir.
„Við höfum lagt áherslu á mörg ólík atvinnutækifæri og ekki víst að fólk hafi almennt áttað sig á að þau samsvara helmingi nýrra atvinnutækifæra á móti álverinu. Það er þó langstærsti einstaki aðilinn. Hinn helmingurinn skiptist á fimm stóra aðila,“ bætir Árni við.
Í skýrslu Capacent um nýja atvinnu næstu 4 ár er auk álvers m.a. gert ráð fyrir byggingu gagnaversins sem er í uppbyggingu að Ásbrú, heilsusjúkrahúsinu, sem nú er verið að byrja á, Kísilveri í Helguvík, sem ekki er byrjað að byggja, og ECA flugverkefninu, sem nú er unnið að á Keflavíkurflugvelli og Ásbrú.
Athygli vekur að ekki eru áætluð áhrif af nýjum störfum vegna alþjóðaflugvallarins eða ferðaþjónustu almennt í skýrslu Capacent. Það gefur vonir um að tekjurnar gætu orðið enn meiri, um leið og enn ríkir óvissa um framkvæmdahraða ýmissa verkefna, eins og ljóst má vera af fréttum.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson