Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórbruni hjá Íslenska gámafélaginu í Helguvík
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 9. apríl 2022 kl. 13:50

Stórbruni hjá Íslenska gámafélaginu í Helguvík

Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á tólfta tímanum í dag eftir að eldur kom upp í flokkunarstöð Íslenska gámafélagsins í Helguvík. Þegar slökkvilið kom á vettvang var flokkunarstöðin alelda og strax ljóst að um stórbruna væri að ræða.

Strax var framkvæmt stórt útkall á slökkvilið og allur tiltækur mannskapur kallaður út.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eldhafið var mikið og aðstæður á vettvangi þannig að fljótlega tók eldurinn að læsa sig í annan eldsmat á lóð fyrirtækisins. Grafa sem stóð undir húsgafli flokkunarstöðvarinnar varð fljótlega eldinum að bráð ásamt litlu húsi á lóð fyrirtækisins. Þá var eldurinn kominn í hjólbarða og haug af timbri sem stóð talsvert frá brennandi húsinu.

Miklar sprengingar mátti heyra á brunastað og var talað um að þar væru gaskútar að springa.

Slökkviliðsmenn hafa náð tökum á bálinu en talsverð vinna er framundan á vettvangi við að slökkva því sem fór að brenna á útisvæðinu við flokkunarstöðina. Flokkunarstöðin sjálf er brunnin til grunna.

Reyk frá brunanum lagði í átt að byggðinni í Garði og þar voru íbúar hvattir til að loka gluggum, enda reykurinn eitraður.

Stórbruni í Helguvík // 9. apríl 2022