Stórbætt þjónusta í strætó
-Styttri biðtími og engar skiptistöðvar
Reykjanesbær mun taka nýtt leiðarkerfi í strætó í notkun í sumar. Um er að ræða svokallað „einnar línu kerfi“ en stefnt er að því að það taki gildi þann 15. júlí. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir ástæðuna að baki breytingarinnar vera stórbætt þjónusta.
„Við höfum núna verið með þrjá hringi í kerfinu og í mörgum tilfellum þarf að skipta um strætó á leiðinni en með þessari breytingu verða engar skiptistöðvar. Strætó keyrir fram og til baka, eina línu, á hálftíma fresti. Þannig mun fólk spara tíma og það þarf ekki að skipta um strætó.“
Þrír vagnar munu keyra, líkt og fyrr segir, á hálftíma fresti, alla virka daga, allan ársins hring. Að auki verður helgarþjónusta í boði, bæði laugardaga og sunnudaga, frá klukkan 10 til 18 á klukkustundar fresti og þá verður akstur á kvöldin bættur. Minni vagnar verða keyrðir um bæinn enda óþarfi að keyra þá stærstu á tímum sem færri nýta sér strætó. Þeir stærstu verða þó áfram nýttir í skólaakstur á morgnana og eftir skóla. „Við erum að hvetja fólk til að nýta sér strætókerfið betur. Við getum vel sloppið með það að vera með eina strætóleið í sveitarfélaginu okkar,“ segir Guðlaugur.
Stefnt er að því að kynna nýja kerfið á umferðar- og samgönguþingi sem haldið verður í Íþróttaakademíunni þann 29. apríl en það verður opið öllum sem áhuga hafa. „Þar munum við koma með tillögur að breytingum á strætókerfinu og tökum fagnandi á móti ábendingum frá fólki.“
Árskort í strætó verður áfram fáanlegt fyrir fimm þúsund krónur en börn, aldraðir og öryrkjar geta nálgast það á tvö þúsund krónur. Ekki stendur til að það muni breytast með nýju leiðarkerfi.