Stórbætt aðgengi að Café Keflavík
Aðgengi fatlaðra að opinberum stöðum hefur stórbatnað í seinni tíð, ekki síst eftir að kröfur í þá veru voru settar inn í lög og reglugerðir. Helstu vandamálin hafa verið með eldri byggingar sem risu fyrir þann tíma og voru ekki hannaðar með þetta í huga. Þrátt fyrir það er oftast hægt að bæta aðgengi fatlaða að eldri byggingum ef viljinn er fyrir hendi.
Dæmi um þetta er Hafnargata 26 sem hýsir Café Keflavík. Nýlega voru gerðar talsverðar endurbætur á húsinu og tóku þær m.a. mið að því að bæta aðgengi fatlaðra en kaffihúsið er á annarri hæð. Utan á húsið var smíðuð verönd með skábraut fyrir hjólastóla.
Þeir félagar Jóhann Kristjánsson og Arnar Helgi Lárusson, sem báðir eru í hjólastjól, mættu á Kaffi Keflavík nú fyrir helgi til að taka út breytingarnar með tilliti til aðgengis fatlaðra. Voru þeir sammála um að breytingarnar væru til fyrirmyndar.
Feðgarnir Jón Grétar Erlingsson og Erlingur Jónsson opnuðu Café Keflavík um miðjan desember síðastliðinn en markmið þeirra er að bjóða upp á notalegt andrúmsloft í huggulegu umhverfi og er t.d. ekkert áfengi er á boðstólum á kaffihúsinu Boðið verður upp á kaffi í ýmsum tilbrigðum ásamt ljúffengu meðlæti og frá og með deginum í dag verður boðið upp á súpu í hádeginu. Þráðlaust internetsamband er á staðnum.
Efri mynd: Arnar Helgi og Jóhann á leið upp skábrautina. Þeim fannst hún örlítið of löng en að öðru leiti segja þeir breytingarnar við húsið til fyrirmyndar og vonandi hvatningu fyrir fleiri eigendur eldri húsa.
Neðri mynd: Á veröndinni við Café Keflavík. Arnar Helgi og Jóhannes ásamt þeim feðgum, Jói Grétari og Erlingi.
VFmyndir/elg