Stóraukin hundaeign á Suðurnesjum
Hundaeign hefur aukist gríðarlega á öllu landinu undanfarin misseri. Á Suðurnesjum eru um 1000 skráðir hundar að sögn Magnúsar H. Guðjónssonar framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Það er einn hundur á hverja tuttugu íbúa.
Lausaganga hunda
Magnús segir að hundaeigendur verði að hafa í huga að: „Margir eru hræddir við lausa hunda. Það þýðir ekki að segja að hundurinn minn gerir engum mein." HES hefur eftirlit með hundahaldi og lausagöngu. „Það er alltaf eitthvað um lausagöngu hunda. Þegar hundar eru handsamaðir er farið með þá í hundageymslu Heilbrigðiseftirlitsins. Þar verður eigandi að gefa sig fram ef hundurinn er ómerktur og við þekkjum hann ekki. Ef hundurinn er skráður þá hringjum við í eigandann sem borgar ekki í fyrsta skiptið, en annars um tuttugu þúsund krónur."
Að svæfa hundinn
„Í dag er afar sjaldgjæft að fólk láti svæfa hundana sína nema hundurinn sé veikur. Það hefur mikið breyst síðan ég byrjaði 1980 þegar algengt var að svæfa heilbrigða hunda segir Magnús. „Hundaeigendur eru meðvitaðir um þann kostnað, ábyrgð og vinnu sem fylgir því að eiga hund. Fólk er betur undirbúið í dag en það var áður".
Tæplega ein kisa svæfð á dag
Mun algengara er að köttum sé lógað. Árið 2004 var kattasamþykkt á Suðurnesjum og kattaeigendum gert að greiða 15.000 kr. skráningargjald fyrir hvern kött. Það ár voru svæfðar 300 kisur sem eigendur sóttu ekki til heilbrigðiseftirlitsins. „Það er töluverður kostnaður að vera með kött," segir Magnús. „Fólk tekur ekki að sér ketti án þess að hugsa sig vel um. Ef börnin koma heim með kettlinga frá nágrönnum eru þau frekar send til baka með kisurnar en að fjölskyldan leggi út í dýrahald án ígrundunar. Það er mikil breyting frá því sem var."
Skrá kettina
Núna er að fara í gang átak varðandi ketti á Suðurnesjum. „Við ætlum að vera í öllum bæjarfélögum á Suðurnesjum með sérhannað búr til að fanga ketti. Ef kötturinn er merktur þá verður athugað hvort hann sé skráður. Óskráða ketti verða eigendur að leysa út með tilheyrandi kostnaði sem gæti hlaupið á tugum þúsunda. Samkvæmt reglugerð má heilbrigðiseftirlitið ekki afhenda köttinn fyrr en eigendur hafa greitt allan kostnað ásamt skráningargjaldi. Skráðum köttum verður auðvitað sleppt án nokkurs kostnaðar."
Skilaboð til hundaeigenda
Magnús hefur þau skilaboð til hundaeigenda að láta hundinn aldrei vera lausan, jafnvel þó hann sé mjög hlýðinn. Mjög mikilvægt er líka að hundaeigendur þrífi upp skítinn eftir hundinn sinn. 90 % af kvörtunum til HES er vegna hundaskíts lausra hunda. Sambúð hundaeigenda við hinn almenna borgara yrði miklu betri ef þessi mál væru í lagi." „Það gengur ekki að hundar séu skítandi í annarra manna garða og það látið viðgangast. Hundaeigendur fengju að hafa hunda sína í friði ef allir stæðu sig vel."