Stóra-Skógfell glóandi heitt á nýjum hitamyndum
Myndatökumaður Víkurfrétta flaug dróna með hitamyndavél yfir hraunbreiðuna sem rann í eldgosinu 8. febrúar sl. Þar má m.a. sjá að hlíðar Stóra-Skógfells eru glóandi heitar. Aurskriður hafa runnið niður hlíðar fellsins og sést að sárin eftir skriðurnar eru mjög heit.
Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar. Skjálftavirkni yfir kvikuganginum hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardag. Heldur meiri virkni er við Fagradalsfjall en þar hafa mælst um 20 skjálftar síðasta sólarhringinn.
Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.
Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring.
Líkanreikningar sýna að um 1,3 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn á laugardaginn 2. mars. Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku hlupu yfir í Sundhnúksgígaröðina.