Stóra blokkin fær andlitslyftingu
Viðmiklar framkvæmdir við Stóru blokkina við Faxabraut hófust í vor, en þær munu kosta á þriðja tug milljóna. Gera má ráð fyrir að íbúðaverð hækki töluvert þegar framkvæmdum er að fullu lokið. Eftir brunann 1995 voru gerðar miklar endurbætur á blokkinni að innan. Margir eigendur gerðu upp íbúðirnar sínar sem eru sumar hverjar orðnar stórglæsilegar. Raflagnir og töflur voru endurnýjaðar, skipt var um þak, risið klætt með gifsi, eldvarnarhurðir voru settar í allar íbúðir og stigagangarnir voru teknir í gegn.Blokkin var orðin illa farin að utan þegar framkvæmdir hófust í vor og í sumum íbúðum var farið að leka meðfram gluggum. Nú er búið að klæða blokkina að utan, að hluta með steinull og saga svalirnar af, og næstu daga verður hafist handa við að klæða húsið með álklæðningu og gera nýjar svalir sem einnig verða klæddar með áli.Umhverfi blokkarinnar hefur einnig verið fegrað á síðustu mánuðum. Bílastæði voru hellulögð, lóðin girt af og leiktæki sett upp í garðinum fyrir börnin. Vegna framkvæmdanna er lóðin ansi illa farin, en þegar þeim lýkur á að skipta um gras og byggja sólpall í kringum blokkina. Þá verður öll aðstaða til útiveru mun betri fyrir íbúana.