Stór framtíðarsýn í ferðamálum á Suðurnesjum
Stórtækar hugmyndir í ferðamálum á Suðurnesjum voru kynntar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Sandgerði um helgina. Hugmyndin kallast Blái demanturinn eða Blue Diamond. Þar fóru ráðgjafarnir Guðmundur Pétursson og Ríkharður Ibsen frá Lykil Ráðgjöf Teymi- Turnkey Consulting Group fyrir kynningu á Bláa demantnum, sem eru fjórir áfangastaðir á Reykjanesi sem geta dregið að sér fjölda ferðamanna. Sé dregin lína á milli þessara staða verða til útlínur demants, sem ráðgjafarnir hafa kosið að kalla Bláa demantinn. Í kynningunni á aðalfundi SSS höfðu þeir Guðmundur og Ríkharður dregið saman í einn pakka þær hugmyndir sem unnið er að í ferðamálum á Suðurnesjum. Það kom fram á fundinum að orð eru til alls fyrst og að hér væri um framtíðarsýn að ræða. Það sem vitanlega er heillandi við framtíðarsýn, er að hún getur alltaf breyst. Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, hlustaði á fyrirlestur þeirra félaga.
Innhlið Íslands
Tilurð verkefnisins Blue Diamond eða Blái Demanturinn, er sú að leita svara við því hvað við Suðurnesjamenn getum gert í ferðamálum framtíðarinnar. Mikil aukning er í klæðskerasaumuðum ferðum í heiminum í dag og ferðaþjónustumarkaðurinn er í sífellt auknum mæli að sérhæfa sig. Sú þróun kallar á einarða útsjónarsemi í sérstaklega hönnuðum ferðum. Ferðamenn vilja komast í styttri ferðir og þörf neytandans kallar á heilsdagsupplifun. Hér höfum við innhlið Íslands; þess vegna segja þeir Guðmundur og Ríkharður möguleikana á Reykjanesi gríðarlega. Um 350.000 erlendir ferðamenn koma inn í landið gegnum Leifsstöð í ár og fjöldinn fer vaxandi ár frá ári. Þessir ferðamenn stoppa margir stutt á landinu og því tilvalið að fá þá til að skoða sig um á Reykjanesi. Það hefur komið fram í könnunum að umhverfið skipti ferðamenn miklu og umhverfi Reykjaness sé einstakt í heiminum. Það sé því markmið að bjóða upp á markaðshæfa vöru og koma í veg fyrir að þau hundruð þúsunda ferðamanna sem koma til landsins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fari útaf svæðinu án þess að njóta þess sem það hefur uppá að bjóða.
Blái demanturinn samanstendur af því sem ráðgjafarnir kalla „Blue Viking”, „Blue Lagoon”, „Big Blue” og „Blue Energy”. Auk framlengingar eða viðbótar segla.
Blue Viking
eða Blái Víkingurinn er verkefni um víkingaheima á Fitjum í Reykjanesbæ. Þar verður naust Íslendings ráðandi auk þess sem saga siglinga yfir Atlantshafið verði sögð. Þar verður einnig sett upp sýning með munum frá víkinga sýningu Smithsonian stofnunarinnar í Bandaríkjunum. Efniviður byggður á siglingum, viðskiptum, trúarbrögðum og hernaði víkinganna er gríðarlega merkilegur og markaðsvænn.
Big Blue
er hugmynd sem breskir fjárfestar hafa verið að skoða um risastórt sjávarsetur við Hafnir. Þar sjá menn fyrir sér sjávarlífssafn þar sem litið yrði til heimshafanna í heild. Þar yrði hægt að komast í návígi við sjávarlíf og hugsanleg styrkt glergöng niður á sjávarbotn við Hafnirnar eða Ósabotna til að skoða sjávarlífið. Þessi hugmynd er skemmst á veg komin af grunnseglunum fjórum.
Blue Energy
eða Bláa orkan er hugmynd að ferðamannatengingu við nýtt raforkuver Hitaveitu Suðurnesja hf. á Reykjanesi. Þar rís nú um 100 megavatta virkjun sem vinnur umhverfisvæna orku úr jarðhita. Hugmyndir gera ráð fyrir sýningarskála þar sem ferðamenn geta kynnt sér þessa orkunýtingu og einnig upplifað ferð að kjarna jarðarinnar, eða eins og það hét í kynningu þeirra félaga, „Journey to the Center of the Earth”.
Blue Lagoon
eða Bláa lónið þekkja allir, enda öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins ef frá er talin Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en búist er við að þar verði gestir yfir 350.000 á þessu ári. Og vöxturinn er yfir 10% á ári. Aðstaða Bláa lónsins stækkar jafnt og þétt. Þar er húðlækningastöð að verða tilbúin og hugmyndir eru uppi um byggingu fimm stjörnu heilsuhótels.
NASA segir Tunglið vera á Reykjanesi
Þá kom fram í kynningunni að geimferðastofnun Bandaríkjanna hefur gefið það út að Sandvík og Surtsey hafa sambærilegt landslag og á tunglinu. Því var kastað fram að þar mætti setja upp hvolfþak, klæða fólk upp í geimbúninga og bjóða upp á gönguferð um tunglið. Ennfremur hafa margir látið í veðri vaka að Rauðhólar á Reykjanesi séu samanburðarhæfir við landslagið á Mars.
Flugminjasafn á Patterson
Á fundinum var einnig greint frá því að Flug- og herminjasafn Reykjaness verði formlega stofnað þann 16. nóvember nk. Þar koma að aðilar úr ýmsum áttum með tæki, tól og gögn tengd fluginu, Varnarliðinu og flugsögu Íslands. „Blue Sky” gæti orðið heillandi aðdráttarafl í þemagarðinum.
Tengd þjónusta
Við demantinn tengja þeir félagar svo til dæmis heimsóknir í Saltfisksetrið í Grindavík og í Fuglaskoðunar- og vitasafn á Garðskaga, Brú milli heimsálfa eða á Fræðasetrið (Háskólasetrið) í Sandgerði, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ljóst að möguleikar Suðurnesja eru miklir til framtíðar. Eins og það var orðað á aðalfundi SSS, þá eru hugmyndirnar stórar, en ef aðeins lítill hluti þeirra kemst í framkvæmd, þá ættu Suðurnesjamenn að vera á grænni grein.
Yfirferð Lykil Ráðgjafar
Kynning Ríkharðs framkvæmdastjóra Lykil Ráðgjafar og Guðmundar stjórnarformanns fólst ekki eingöngu í Blue Diamond. Sýndu þeir einnig 9 mínútna kynningarmynd um það „project” (BLUE DIAMOND - PROMOTIONAL FILM - FIRST CUT) en tóku ennfremur fyrir; byggðaþróun á Stór-Reykjavíkursvæðinu til framtíðar, Norður-Ísahafsleiðina, Helguvík - Iðngarða, 6. sveitarfélagið (Varnarliðið) og nokkur önnur verkefni af Reykjanesi.