Stór alþjóðleg ráðstefna hjá Keili tókst vel
Keilir stóð dagana 15. og 16. sept. fyrir mikilli aljþóðlegri ráðstefnu. Efni hennar var eldgos og flugstarfssemi. Tæplega 300 manns sátu ráðstefnuna víða að – Japan, Súdan, Taiwan, Ástralíu, Evrópu og Ameríku. Þarna komu saman í fyrsta sinn jarðvísindamenn, flugvélarekendur, framleiðendur (Boeing, Airbus, Rolls Royce), samtök flugfélaga, flugmanna, heildarsamtaka, yfirmaður flugmála í Evrópu og þannig má áfram telja. Ætlunin var að safna saman svörum við þeim spurningum sem ósvarað er eftir gosið í Eyjafjallajökli.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, var spurður hvernig til hefði tekist.
„Við erum alsæl með þær viðtökur sem ráðstefna fékk. Þátttakendur, allir alvanir ráðstefnum, gáfu okkur hæstu einkunn fyrir skipulag og aðstöðu. Þetta var prófsteinn á stóra alþjóðlega ráðstefnu á Ásbrú. Við getum nú sagt með góðri vissu að við getum tekið við svona ráðstefnum svo sómi verði af. Aðstaðan er einstök. Andrews Theater er einn besti ráðstefnusalur landsins, Salurinn nýi hjá Keili tekur með góðu móti 260 manns í mat, nægt gistirými á Suðurnesjum, stutt í bæinn, einstakar ferðamannaperlur í grenndinni og úrvals fólk í mat og þjónustu“.
- Hvernig bar þetta til?
„Jón Hjaltalín Magnússon kom með þessa hugmynd til okkar og féllum við strax fyrir henni enda passar hún við Flugakademíuna. Síðan leituðum við til góðra samstarfsaðila, innlendra og erlendra, sem allir tóku hugmyndinni fagnandi. Verndari ráðstefnunnar var forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, sem sendi persónulegt bréf til fyrirlesara sem voru um 50 talsins. Það skipti miklu máli. Margir höfðu á orði við okkur að sjaldan hefðu jafn margir háttsettir úr flugbransanum verið saman komnir. Athygli okkar vakti hve margir buðust til að vera samstarfsaðilar okkar með ráðstefnuna. Þekkt fyrirtæki og alþjóðastofnanir“.
- Varð niðurstaða?
„Segja má að allir þessir aðilar hafa getað talað sig inn á gildi þess að vinna saman – í stað þess að borast hver í sínu horni. Vitað er að eldgos eiga eftir að verða og sum miklu stærri enn í Eyjafjallajökli. Mikilvægt er því að vera undir það búin að takast á við það með skynsömum hætti. Mjög var litið til þess hvernig Icelandair lagaði starf sitt að breytilegum aðstæðum. Niðurstaða þessarar ráðstefnu verður boðskapur inn á aðalfund Alþjóða flugmálastofnunarinnar í næstu viku“.
- Hvað um framhald?
„Við höfum sett stefnuna á að hafa ráðstefnuhald eina af föstum stoðum Keilis. Með alla aðstöðuna hér og þá sérfræðikunnáttu, sem er til staðar, opnast endalausir möguleikar. Ein minni ráðstefna (um 80 manns) verður í lok mánaðrins á vegum Heilsuskólans þar sem þekktir úrvalsþjálfarar frá Bandaríkjunum kenna það nýjasta á sínu sviði. Þá erum við búin að handsala samning um risastóra ráðstefnu innan fárra mánaða í samstarfi við alþjóðlega aðila. Við erum rétt að byrja og enda getur ráðstefnuhald skapað gífurlega möguleika fyrir samfélagið hér“.
- Hverju skiptir þetta fyrir Keili?
„Um ráðstefnuna hefur þegar verið fjallað í fjölmörgum erlendum fréttaveitum, en minna hérlendis. Bara það felur í sér milljóna virði í kynningu á Keili enda höfum við strax orðið vör við það. Þá hafa strax erlend flugfélög boðið okkur að senda nemendur eftir útskrift til sín. En ekki síst höfum við núna fengið dýrmæta reynslu að ráðstefnuhaldi og munum byggja á henni frekari sókn á því sviði,“ sagði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, í samtali við Víkurfréttir.
Ljósmyndir frá ráðstefnu Keilis: Hilmar Bragi Bárðarson