Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stór áfangi fyrir Sandgerðisbæ
Föstudagur 14. nóvember 2014 kl. 09:52

Stór áfangi fyrir Sandgerðisbæ

Stefna á að ná skuldaviðmiðinu niður fyrir 150% fyrir 2019

Sandgerðisbær samþykkti á dögunum að kaupa upp þær eignir í Sandgerði sem eftir voru í Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Kaupin eru að stærstum hluta fjármögnuð með láni frá Íslandsbanka að upphæð einn milljarð króna. Þegar kaupin ganga í gegn síðar í mánuðinum verður Sandgerðisbær ekki lengur aðili að Fasteign, þar sem allar eignir í Sandgerði sem voru í eigu félagsins komast nú í eigu bæjarfélagsins.

„Það má segja að þetta sé skuldbreyting. Þannig að í stað þess að skulda Fasteign þessa fjárhæð, þá erum við að færa eignirnar yfir til okkar og vera með lán í okkar nafni. Þetta er tilfærsla á skuldbindingu, þannig að ekki er verið að auka skuldirnar. Það var mikill pólitískur vilji fyrir því að þessar eignir kæmust aftur í eigu sveitafélagsins,“ segir Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðis. Hún segir að það hafi verið á stefnuskrá undanfarin ár að eignast aftur þær eignir af Fasteign sem bærinn átti. „Ég held að þetta hafi heilmikla þýðingu fyrir bæinn. Þetta eru nú eignir bæjarins, í stað þess að vera fasteignir sem við leigjum af öðrum aðila.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigrún segir Sandgerðisbæ vera að á góðri leið þrátt fyrir töluverðar skuldir. „Við stefnum á að ná skuldaviðmiði niður fyrir 150% árið 2019. Það má segja að þetta sé stór áfangi í þeim málum. Það er búið að fara í gegnum það að borga upp gjaldeyrislán og óhagstæð lán. Nú er allt að komast í þann farveg sem við viljum og nú er stefnan að lækka skuldirnar sem hraðast og mest,“ segir bæjarstjórinn en skuldaviðmið Sandgerðisbæjar er nú um 220%. Eignirnar sem um ræðir eru Íþróttamiðstöð Sandgerðisbæjar og eldri bygging Grunnskóla Sandgerðis. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar fagnar því að Íþróttamiðstöðin og eldri hluti Grunnskólans séu á ný í eigu bæjarfélagsins. Þar með sé lokaáfanga markmiða sem sett voru um endurskipulagningu skulda og skuldbindinga náð.