Stökkvandi hrefnur og fleiri ferðamenn
Þrátt fyrir mikla fækkun Varnarliðsfólks er rekstur hvalaskoðunarbátsins Moby Dick svipaður á milli ára. Hvalaskoðunarferðir hafa verið afar vinsælar á meðal varnarliðsfólks, svo ætla mætti að rekstur Moby Dick yrði fyrir búsifjum við brottfor hersins. Helga Ingimundardóttir, rekstaraðili bátsins, segir svo ekki vera því aukning ferðamanna í sumar hafi komið í staðinn.
„Við búum líka svo vel að hafa getað boðið áhugaverðan pakka sem samanstendur af hvalaskoðunarferð og ferð í Bláa lónið en þær ferðir hafa verið mjög vinsælar í sumar. Þrátt fyrir að herinn sé að fara er framtíðin björt og sóknarfærin mörg. Í því skyni bind ég miklar vonir við orkuverið á Reykjanesi og Víkingaheiminn“, segir Helga.
Þær hvalategundir sem mest hafa sést í sumar eru hrefna og hníðingur, sem er algengasta höfrungategundin hér við land. Einnig er hnúfubakur nokkuð algengur. „Það sem kemur okkur á óvart núna er að við höfum verið að sjá stökkvandi hrefnur, sem er mjög óvenjulegt. Það er algengara að sjá hnúfubakinn stökkva og við höfum séð hann taka góðar syrpur,“ segir Helga.
„Það er alveg með ólíkindum hvað hvalarnir halda sig alltaf nánast á sama blettinum þarna í Garðsjó. Það er nánast hægt að ganga að því vísu að þeir séu á sínum stað, enda hefur sést til þeirra í nánast hverri einustu ferð í allt sumar. Í aðeins þremur eða fjórum tilvikum sást illa til þeirra hvala sem voru,“ sagði Helga.
Mynd úr safni.