Stofnlögnin farin – mikilvægt að allir leggist á eitt
Heitavatnslögn við Svartsengi hefur rofnað og nú eru aðeins varabirgðir heitavatns eftir fyrir Suðurnes, búist er við að þær dugi í tólf til fjórtán tíma. Búið er að lækka þrýsting á kerfinu og eru íbúar og fyrirtæki beðin um að leggjast á eitt við að spara heitt vatn og rafmagn eins og kostur er.
Almannavarnir sendu eftirfarandi tilkynningu fyrir skömmu síðan en stofnlögnin fór í sundur eftir það:
Almannavarnir ítreka skilaboð til íbúa á Reykjanesi að bíða með að hefja rafkyndingu eins lengi og hægt er. Íbúar og fyrirtæki eru beðnir um að lækka í hitakerfum í húsum sínum og ekki nota heitt vatn til böðunar í sturtu, baði eða heitum pottum. Er það gert til að spara heitt vatn. Mikilvægt er að allir leggist á eitt.
Hætta er á að hraunflæðið fari yfir stofnlögn HS Veitna sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ. Eins og hraðinn er á hraunflæðinu er núna gæti stofnlögnin farið undir hraun á innan við klukkustund.
Fari stofnlögnin undir hraun er útlit fyrir að ekkert heitt vatn komi frá Svartsengi með þeim afleiðingum að heitavatnslaust verður í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum. Getur það gerst innan klukkustundar og því er mikilvægt að allir íbúar og fyrirtæki spari hita og heitt vatn.
Tímalengd heitavatnsleysisins er óljós á þessari stundu. Unnið er hörðum höndum að því að koma bráðabirgðalausn í gagnið.