Stofnkostnaður við byggingu álvers lækkar
- „Jákvæður undirtónn“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri.
Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls, er um þessar mundir að leggja víðtækt mat á stöðu álvers í Helguvík. Í tilkynningu félagsins segir Logan Kruger, forstjóri Century: . „Við erum viss um að álverið verður á heimsmælikvarða þegar litið er til byggingarkostnaðar og umhverfisþátta. Þá munu efnahagsumsvifin, sem fylgja verkefninu styrkja Ísland á þessum umbrotatímum. Eins og umhverfið er gerum við ekki nýja samninga og aukum ekki kostnað í verkefninu. Við teljum að það sé möguleiki á skynsamlegum framgangi með tímanum en við munum á yfirvegaðan hátt meta hagkvæmni allra þátta verkefnisins á næstunni."
Hagnaður bandaríska álfélagsins Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, nam 37 milljónum dala, jafnvirði 4,2 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 7 milljóna dala hagnað á sama tíma í fyrra. Tekjur jukust um 22% milli ára og voru 552,2 milljónir dala. Er tekjuaukningin m.a. rakin til framleiðsluaukningar í álverinu á Grundartanga.
Miklar vangaveltur eru á netinu um hvað lesa megi úr tilkynningu Century Aluminium. Víkurfréttir höfðu samband við Árna Sigfússon og báðu hann að túlka orð forstjórans. Árni sagði að eðlilega væri um að ræða varkár viðbrögð í ljósi efnahagsástandsins en mjög jákvæður undirtónn.
„Þótt álverð lækki getur verið hagkvæmt að byggja álver á þessum tíma, því ýmis stofnkostnaður lækkar einnig, s.s. tengt stáli, tækjabúnaði og fleiru. Við vonum einnig að mjög margt af því sem óklárt er í frágangi mála verði komið á hreint innan tveggja vikna, svo kröftug og fjölmenn uppbygging fari af stað upp úr áramótum,“ segir Árni í samtali við Víkurfréttir og bætir við: „Ef það tekst trúi ég að við séum á mjög beinni braut. En það þarf að takast. Allar tafir nú eru hættulegar“.
Mynd: Frá byggingaframkvæmdum á lóð álvers Norðuráls í Helguvík. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi