Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stofna samtök um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar
Miðvikudagur 7. september 2005 kl. 21:07

Stofna samtök um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar

Breið samstaða er á Suðurnesjum um að flytja innanlandsflugið frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar og hafa formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákveðið að gangast fyrir stofnun samtaka sem berjist fyrir flutningi innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar og gerð samgöngumannvirkis milli Straumsvíkur og Vatnsmýrarinnar. Þetta eru þeir Eysteinn Eyjólfsson, formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, Eysteinn Jónsson, formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ og Viktor Borgar Kjartansson, formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ. Þá var óháður aðili fenginn til að fara með formennsku í undirbúningsstjórninni en það er Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.

Í samtali við Víkurfréttir sögðu formennirnir samtökin verða þverpólitísk og bjóða alla velkomna sem vilja sýna málefninu stuðning. Hagfræðilega úttekt á þeim hugmyndum sem fram hafa komið verður meðal fyrstu verkefna samtakanna og í framhaldi af því verður haldið opið málþing þar sem fulltrúum allra sjónarmiða verði boðið til skrafs og ráðagerða. Hægt er að gerast stofnfélagi með því að skrá sig í samtökin á heimasíðu samtakanna www.flugkef.is en þátttökugjald er 1500 kr. Stofnfundur verður auglýstur fljótlega.

Mikið hefur verið rætt um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni að undanförnu og sitt sýnist hverjum um nýja staðsetningu innanlandsflugsins. Hagsmunir Suðurnesja eru augljósir í þessum efnum og hefur það lengi verið skoðun flestra Suðurnesjamanna að það sé einungis spurning um hvenær en ekki hvort innanlandsflugið flytjist til Keflavíkurflugvallar. Hagsmunir höfuðborgarinnar eru einnig augljósir þegar horft er til þeirra tækifæra sem skapast í skipulagsmálum Reykjavíkur við niðurlagningu flugvallarins í Vatnsmýrinni.
„Við gerum okkur grein fyrir því að það eru hagsmunir landsbyggðarinnar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem nauðsynlegt er að sækja til höfuðborgarinnar og eru því greiðar samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur nauðsynlegar," sögðu formennirnir í samtali við blaðið.

Þjóðarsátt um flutning innanlandsflugsins til Keflavíkurflugvallar
Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkurflugvallar mun hafa áhrif á samgöngur milli höfuðborgarinnar og landsbyggðar enda vekja hugmyndir um flutning innanlandsflugsins einatt upp háværar gagnrýnisraddir landsbyggðarfólks. Helst er því haldið fram að flutningurinn verði til þess að innanlandsflugið leggist af sökum þess að fólk muni velja frekar að aka til Reykjavíkur í stað þess að fljúga, vegna þess viðbótartíma sem bætist við ferðalagið, þ.e. frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.
Formennirnir, sem standa að stofnun samtakanna, telja hins vegar að rödd skynseminnar eigi að ráða og auðveldlega sé hægt að leysa þau vandkvæði sem fylgja flutningi starfsseminnar.
„Við fullyrðum að með bættum samgöngum sé hægt að ná ferðatíma frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur niður í 25-30 mínútur. Flöskuhálsinn á leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og miðbæjar Reykjavíkur er ekki kaflinn frá Reykjanesbæ til Hafnarfjarðar heldur liggur vandinn í samgönguhnútum innan höfuðborgarinnar.
Margar leiðir eru til að bæta úr þessum flöskuhálsum. Við höfum til dæmis velt því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að gera beina samgöngutengingu frá Straumsvík í Vatnsmýrina sem mætti leysa með gerð brúar og/eða jarðgangna. Allar líkur benda til þess að slík samgöngutenging borgi sig og komi til með að stytta ferðatímann verulega. Með þessari lausn ætti að vera hægt að skapa þjóðarsátt um málið, Reykvíkingar fá dýrmætt landsvæði til afnota og aðgengi landsbyggðarfólks að höfuðborginni breytist lítt," sögðu þeir Eysteinn Jónsson, Viktor B Kjartansson og Eysteinn Eyjólfsson í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Eysteinn Eyjólfsson, formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, Eysteinn Jónsson, formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ og Viktor Borgar Kjartansson, formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ. Þá var óháður aðili fenginn til að fara með formennsku í undirbúningsstjórninni en það er Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024