Stofna nýja markaðs- og atvinnumálanefnd
Til stendur að stofna nýja markaðs- og atvinnumálanefnd í Garði. Hlutverk hennar verður að efla atvinnulífið og markaðssetja sveitarfélagið sem vænlegan stað til rekstrar.
Bæjarfulltrúar N-listans í Garði lögðu fram tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi þess efnis að skipuð yrði nefnd um atvinnumá sem skipuð yrði fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn Garðs. Tilgangurinn væri að bregðast við atvinnuleysi í Garði og leita leiða til að draga úr því. Nefndin kæmi með tillögur um framtíðarsýn í atvinnumálum Garðbúa.
Í bókun sem D-listinn lagði fram við sama tækifæri segir að í framtíðarsýn Sjálfstæðismanna og óháðra í Garði, sem lögð var fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí, komi fram að stefna D-lista sé að koma á laggirnar Markaðs- og atvinnumálanefnd. Hlutverk hennar yrði að efla atvinnulífið og markaðssetja sveitarfélagið sem vænlegan stað til rekstrar þar sem almennt umhverfi í gjalda- og skattamálum sé hófstillt.
Tillaga N-lista um nefnd um atvinnumál falli því vel að stefnu D-lista um að koma á fót Markaðs- og atvinnumálanefnd.
Samþykkt var samhljóða tillaga um að bæjarráði yrði falið að gera breytingar á Bæjarmálasamþykkt Garðs þar sem stofnum nýrrar Markaðs- og atvinnumálanefndar yrði gerð skil. Jafnframt yrði bæjarráði falið að endurskoða bæjarmálasamþykktina í heild sinni og skila tillögum sínum fyrir næsta fund bæjarstjórnar í byrjun október.
--
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Frá Garði.