Stofna afreksbraut fyrir grunnskólanema í Reykjanesbæ
Nýtt og spennandi samstarfsverkefni Íþróttaakademíunnar og Reykjanesbæjar fer í gang næsta haust, en um er að ræða afreksbraut fyrir grunnskólanemendur.
Þátttakendur munu stunda fjölþætta líkamsþjálfun í Íþróttaakademíunni meðfram hefðbundnu grunnskólanámi í Myllubakkaskóla en þetta fyrirkomulag hefur verið að festa sig í sessi í Noregi. Einnig eru fjölmörg íslensk sveitarfélög í startholunum, en Reykjanesbær er það fyrsta sem ríður á vaðið.
„Þetta verður tveggja ára tilraunaverkefni til að byrja með,“ sagði Sigurður Ingimundarson, forstöðumaður Afreksbrautar Íþróttaakademíunnar, og bætir því við að það hafi verið þörf á að koma til móts við afreksíþróttamenn í grunnskólum. „Þetta verður einn níundi bekkur í Myllubakkaskóla, en allir krakkar í Reykjanesbæ geta sótt um að komast þar að.“
Nú þegar er starfrækt Afreksbraut fyrir íþróttafólk í Fjölbrautaskólanum, en Sigurður segir þetta verkefni vera næsta skref. Munurinn sé þó að þjálfunin verður ekki sérhæfð eins og í FS.
„Áherslan verður lögð á grunnþjálfun sem nýtist í öllum íþróttagreinum,“ segir Brynja Árnadóttir, skólastjóri Myllubakkaskóla. „Þarna fá þau að kynnast hollu mataræði og góðum lífsvenjum og er afar spennandi að fá þetta verkefni inn í skólann eins og allt sem tengist hreyfingu og heilbrigði.“
Aðstandendur verkefnisins eru þess fullviss um að nóg sé af afreksíþróttafólki á þessum aldri. Fyrsta árið er gert ráð fyrir að fjöldinn verði á milli 18 og 24 og verða margir um hituna ef má ráða af viðtökunum í Noregi á sínum tíma. Þar voru auglýstar 30 stöður og 800 manns sóttu um. Árangurinn þar hefur verið framar vonum og er vonast eftir svipuðu gengi hér. Á næstunni verður tilkynnt um hvenær umsóknarfrestur rennur út.
Þó áherslan verði á íþróttir verða krakkarnir að standa sig í skólanum að sögn Sigurðar. „Þau munu fylgja hefðbundinni námsskrá eins og aðrir þessi tvö ár. En það er líka lögð áhersla á að þetta er afreksfólk svo þau þurfa að standast kröfur um námsárangur og vera með góða mætingu og standa sig vel að öllu leyti.“
Þess má þó geta að þau sem taka þátt munu enn stunda æfingar með sínum íþróttafélögum í sínum greinum. Afreksbrautin er einungis hugsuð sem viðbót og fer fram á hefðbundnum skólatíma.
Brynja segir að ef vel takist til á reynslutímanum sé Myllubakkaskóli tilbúinn að taka áfram þátt og með þessu til framtíðar. „Það er alltaf verið að tala um þörfina á meiri hreyfingu hjá þessum krökkum og með þessu samstarfi má segja að við séum að fara inn á þá braut að leggja meiri áherslu á heilsu og íþróttir.“
VF-mynd/Þorgils - Björk og Sigurður ásamt Steinari Jóhannssyni, íþróttakennara