Stöðvaði sennilega ekki á vegamótunum
	Ökumaður flutningabíls, sem ók í veg fyrir mótorhjól á vegamótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar með þeim afleiðingum að 34 ára gamall ökumaður bifhjólsins lést, virti sennilega ekki stöðvunarskyldu. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem RÚV greinir frá. Slysið átti sér stað í júlí árið 2016.
	Gerðar voru breytingar á staðnum þar sem slysið varð í kjölfar banaslyssins og telur nefndin þær hafa verið til bóta fyrir umferðaröryggi. Gatnamótin hafa nú verið aflögð og umferð af Hafnavegi flutt í hringtorg skammt frá.
	Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að ökumaður flutningabílsins sagðist hafa stöðvað við vegamótin vegna stöðvunarskyldu og beðið á meðan nokkrar bílar óku hjá. Hann hefði aldrei séð mótorhjólið þrátt fyrir hafa litið vel til beggja átta. 
	Nefndin bendir hins vegar á að samkvæmt gögnum úr ökurita flutningabílsins hafi honum verið ekið á um 20 km/klst hraða inn á vegamótin án þess að stöðva við stöðvunarskyldu. Framburður vitnis renni auk þess stoðum undir þessa niðurstöðu. „Að mati nefndarinnar hægði ökumaður flutningabílsins vel á sér en stöðvaði sennilega ekki á vegamótunum,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
	Nefndin segir þekkt úr slysarannsóknum að ökumenn líti til annarrar umferðar en taki samt ekki eftir atriðum í sjónsviði sínu sem skipti máli. Þetta sé nokkuð algengt þegar ekið sé í veg fyrir mótorhjól eða reiðhjól. Nefndin beinir því til ökumanna að hafa þau sérstaklega í huga í umferðinni til að minnka líkur á alvarlegum mistökum.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				