Stöðug virkni í eldgosinu
Eldgosið sem hófst þann 29. maí heldur áfram. Virknin hefur verið stöðug síðasta sólarhringinn og er mest í þeim gíg sem var virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars og að auki er virkni á hluta gossprungunnar norðan hans.
Þrír meginstraumar hrauns liggja frá gosstöðvum. Hraunið rennur frá tveimur stöðum. Einn gígur í suðri og tveir í norðri. Hraunið frá syðsta gíg rennur til suðurs, en einnig til vesturs og svo norður með Sýlingafelli. Hraunið frá nyrðri gígunum rennur til austurs og svo suðausturs.
Straumurinn til suðurs nær ekki langt, en þar safnast hraunið upp í tjörn og gæti náð framrás á næstu dögum.