Stjórnvöld marki stefnu
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins getur Flugmálastjórn ekki tekið við öllu því hlutverki sem Bandaríkjamenn sinntu við eftirlit með óþekktum flugvélum í lofthelgi Íslands vegna þess að NATO myndi aldrei samþykkja slíka tilhögun. Eftir að Bandaríkjaher lokaði stjórnstöð sem vann úr upplýsingum frá frumratsjám í vor geta flugvélar nú flogið um íslenska lofthelgi án þess að sjást. Heimildir Fréttablaðsins herma að ýmsir innan stjórnsýslunnar hafi miklar áhyggjur af þessari stöðu mála. Þær segja að það skorti sýn á hvernig bregðast eigi við þessum breytingum og að stjórnvöld þurfi að fara í stefnumörkunarumræðu um hvernig eigi að gæta og starfrækja öryggissvæði Keflavíkur. Það sé ekki tækt að vera með sýnilegar varnir og hernaðarviðveru á landinu einn daginn en vakta ekki einu sinni alla flugumferð með trúverðugum aðila sem NATO samþykkir þann næsta.
Þorgeir Pálsson flugmálastjóri segir að slíkur málatilbúnaður sé á misskilningi byggður. „Ég hef ekki verið að tala um að við gætum tekið við allri þeirri starfsemi sem hefur farið fram í stjórnstöðinni. En við getum hins vegar unnið úr merkjum frumratsjáa til að geta fylgst með vélum sem senda ekki auðkenni sitt með ratsjám. Það er ekkert óalgengt erlendis að flugstjórnarmiðstöðvar séu að vinna úr slíkum merkjum þó að við höfum ekki haft þörf fyrir það til þessa." Hann bætir við að hlutverk Flugmálastofnunar sé fyrst og fremst að sjá til þess að flugumferðin gangi örugglega fyrir sig og því þurfi hún að vita af öllum flugvélum sem eru í loftrýminu.
Samkvæmt Ólafi Erni Haraldssyni, forstjóra Ratsjárstofnunar Íslands, er allur búnaður til þess að sinna eftirlitinu nú þegar til staðar. Sá búnaður er að hans sögn í eigu NATO og var skilinn eftir í höndum Íslendinga þegar varnarliðið lokaði stjórnstöð sinni.
Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, segir að það sé ekki komið á hreint hvort búnaðurinn sem notaður er til eftirlitsins verði áfram hér á landi. Hann segir þó að farið sé að huga að því hvaða stofnun muni taka við þessu eftirlitshlutverki en ótímabært sé að tjá sig um málið nú vegna þess að varnarviðræðurnar standi enn yfir. „Sendinefndin er úti núna að funda um varnarmálin og það er mest að frétta þegar þeim viðræðum er að fullu lokið. Þó að margt hafi verið rætt í þessum efnum þá verður gengið frá öllum málum í lokin. Það verður ekki tekin ákvörðun um einn hluta núna."