Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stjórnvöld að taka ákvarðanir sem hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin
Föstudagur 21. ágúst 2020 kl. 10:42

Stjórnvöld að taka ákvarðanir sem hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, telur að stjórnvöld séu að taka ákvarðnir sem munu hafa ófyrirsjáanlegar en gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin án nægrar ígrundunar. Þetta segir hann í færslu á Facebook rétt í þessu.

„Nú eru áhrif nýrra reglna, sem skylda alla farþega sem koma til landsins í 2 skimanir og 5 daga sóttkví, farnar að koma í ljós. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkar aftur ört, enda landið í raun lokað, og flugfélög fella niður flug, ekki bara einstaka ferðir heldur áætlanir haustrins og vetrarins. Þúsundir Suðurnesjamanna misstu vinnuna sl. vor þegar Covid reið fyrst yfir en hluti þeirra hafði fengið endurráðningu. Það var aðeins farið að birta til. Nú er aftur orðið svart framundan.

Nú berast fregnir af fyrirhuguðum fjöldauppsögnum á flugvellinum á ný með gríðarlega alvarlegum afleiðingum fyrir fjölskyldur og efnahagslíf á Suðurnesjum en Keflavíkurflugvöllur er uppspretta um 40% efnhagslífs á svæðinu. Það munar um minna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Menn greinir á hvort þetta sé nauðsyn. Samkvæmt mínum upplýsingum tengdust smitin sem upp komu í seinni faraldrinum fyrst og fremst ungu fólki sem hafði ekki farið nægilega gætilega um Verslunarmannahelgina og yfirvöld voru búin að ná nokkuð góðum tökum á ástandinu.

Ég tel að stjórnvöld séu að taka ákvarðnir sem munu hafa ófyrirsjáanlegar en gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin án nægrar ígrundunar,“ segir Kjartan Már í færslunni.